Þýska landsliðið vann króatíska landsliðið, 33:27, í síðasta æfingaleik beggja liða að viðstöddum nærri 11 þúsund áhorfendum í ZAG Arena í Hannover í Þýskalandi í dag. Þetta var annar sigur lærisveina Alfreðs Gíslasonar á króatíska liðinu undir stjórn Dags Sigurðssonar á nokkrum dögum. Fyrri viðureign liðanna lauk, 32:29, í Zagreb á fimmtudagskvöld.
Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæmdu leikinn.
Þjóðverjar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12.
Renars Uscins og Lukas Zerbe skoruðu fimm mörk hvor fyrir þýska landsliðið. Lukas Mertens skoraði fjögur mörk.
Filip Glavaš var markahæstur hjá Króötum með fjögur mörk.
Króatar mæta Georgíumönnum í fyrstu umferð E-riðils Evrópumótsins í Malmö á laugardaginn.
Þjóðverjar hefja keppni á EM á miðvikudaginn með leik við Austurríkismenn í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi.
EM 2026 – fréttasíða.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar





