Ekkert varð af síðari úrslitaleik HC Alkaloid og AEK Aþenu í Evrópubikarkeppninni í handknattleik karla sem fram átti að fara í Skopje í Norður Makedóníu í kvöld. Handknattleikssamband Evrópu, EHF, segir leiknum hafa verið frestað af öryggisástæðum. Þetta er í annað sinn sem hætt er við leik hjá AEK í þessari keppni af sömu ástæðu. Eftir því sem næst verður komist neituðu leikmenn AEK að fara inn á leikvöllinn. Töldu samkomulag um miðasölu til stuðningsmanna hafa verið rofið.

Alls er óvíst hvaða stefnu málið tekur en væntanlega mun EHF gefa út tilkynningu á morgun, mánudag.
Alkaloid vann fyrri leikinn
HC Alkaloid vann fyrri viðureignina sem fram fór í Aþenu fyrir viku, 29:25, að viðstöddum 7.900 áhorfendum, sem var áhorfendamet á úrslitaleik Evrópubikarkeppninnar.

Skemmst er að minnast þess er viðureign AEK og RK Belgrad í undanúrslitum var frestað þegar leikmenn AEK neituðu að leika vegna þess að þeim þótti öryggi sínu ógnað í keppnishöllinni í Belgrad. Leikurinn fór síðar fram fyrir luktum dyrum í Búlgaríu.
Stuðningsmenn stöðvaðir
Eftir því næst verður komist mun AEK m.a. hafa neitað að taka þátt í leiknum í kvöld í Skopje sökum þess að fjöldi stuðningsmanna liðsins var stöðvaður við komuna til Norður Makedóníu vegna þess að þeir voru miðalausir.
Forráðamenn AEK segja í yfirlýsingu að stjórnendur HC Alkaloid hafa brotið samkomulag um fjölda miða til stuðningsmanna félagsins. Af þeirri ástæðu hafi fólk gert tilraun til þess að fara til Norður Makedóníu án miða. Eins og áður þá stendur orð gegn orði í þessum efnum.