Öðrum leiknum í röð töpuðu Stjörnumenn á síðustu sekúndu í dag þegar þeir sóttu FH-inga heim í Kaplakrika í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Einar Örn Sindrason skoraði sigurmark FH úr vítakasti þegar leiktíminn var á enda, 32:31.
Tandri Már Konráðsson jafnaði metin fyrir Stjörnuna sex sekúndum áður en leiktíminn rann út, 31:31. FH-ingar brunuðu fram og Daníel Karl Gunnarsson braut á Birgi Má Birgissyni. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dómarar voru ekki í vafa. Þeir dæmdu FH vítakast sem Einar Örn skoraði örugglega úr framhjá Adam Thorstensen markverði Stjörnunnar.
(Jói Long var var að vanda mér myndavélina í Kaplakrika í dag. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri).
Á síðasta sunnudag tapaði Stjarnan fyrir Val með eins marks mun þegar Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði sigurmark Vals á síðustu andartökum leiksins rétt eftir að Stjarnan hafði jafnað metin. Gremjuleg úrslit fyrir Stjörnuna sem áfram situr í áttunda sæti Olísdeildar með 13 stig þegar fjórar umferðir eru eftir.
FH heldur þriggja stiga forskoti á toppnum, alls 33 stig. Valur er næstur á eftir eins og fyrri daginn.
Stjarnan var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:17.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Mörk FH: Aron Pálmarsson 9, Jón Bjarni Ólafsson 6, Birgir Már Birgisson 4, Einar Örn Sindrason 4/3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Jakob Martin Ásgeirsson 3, Símon Michael Guðjónsson 1, Ásbjörn Friðriksson 1, Jóhannes Berg Andrason 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12/1, 27,9%.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 10/4, Pétur Árni Hauksson 7, Hergeir Grímsson 3, Egill Magnússon 3, Benedikt Marinó Herdísarson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 3, Daníel Karl Gunnarsson 2.
Varin skot: Adam Thorstensen 12/1, 27,9%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.