Selfyssingurinn Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir hefur gengið til liðs við Aftureldingu sem leikur í Grill 66-deildinni. Hún kemur til Aftureldingar frá Selfossi hvar hún hefur leikið upp yngri flokka og upp í meistaraflokk. Elínborg Katla er línukona og skoraði 26 mörk í 16 leikjum með liði Selfoss í Olísdeildinni í vetur sem leið.
Undanfarin ár hefur Elínborg Katla átt sæti í yngri landsliðunum og var síðast í U20 ára landsliðinu sem hafnaði í sjöunda sæti á HM í Skopje í Norður Makedóníu á síðasta sumri. Liðið var hársbreidd frá sæti í undanúrslitum.
„Þetta er því mikill fengur fyrir félagið. Við hlökkum gríðarlega til þess að sjá hana í rauðu treyjunni næstu tímabil. Bjóðum hana hjartanlega velkomna í Pizzabæ,“ segir í tilkynningu Aftureldingar.
Afturelding hafnaði í þriðja sæti í Grill 66-deildinni í vetur og komst í úrslit umspils um sæti í Olísdeildinni en tapaði fyrir Stjörnunni í úrslitarimmu.