Afturkippur varð í meiðslum Arnars Freys Arnarssonar og Ómars Inga Magnússonar sem varð til þess að hvorugur getur gefið kost á sér í íslenska landsliðið sem mætir Grikkjum í undankeppni EM í næstu viku. Báðir virðast hafa farið of snemma af stað eftir meiðsli.
Ómar Ingi var með Magdeburg gegn smáliðinu Potsdam í gær í þýsku 1. deildinni. Var það hans fyrsti leikur eftir ökklatognunina í lok nóvember. Ómar Ingi hafði samband við Snorra Stein Guðjónsson landsliðsþjálfara í morgun og sagðist ekki geta verið með landsliðinu vegna bakslags sem orðið hafi.

Arnar frá í 10 vikur
Arnar Freyr var með Melsungen gegn Flensburg á laugardaginn en komst ekki heill í gegnum leikinn sem var hans fyrsti eftir að hann tognaði í aftanverðu læri í fyrri vináttuleiknum við Svía nokkrum dögum áður en HM í Króatíu hófst. Hafði hann verið í meðferð hér heima um skeið en verið í Þýskalandi síðustu vikuna fyrir leikinn á laugardagskvöld við Flensburg.
Í tilkynningu MT Melsungen í dag kemur fram að Arnar Freyr verði frá keppni í allt að 10 vikur, hálfan þriðja mánuð. Gangi það eftir nær Arnar e.t.v. allra síðustu leikjum tímabilsins.
Langur listi
Auk þeirra eru Gísli Þorgeir Kritsjánsson, Viggó Kristjánsson, Teitur Örn Einarsson og Elvar Örn Jónsson meiddir svo og Viktor Gísli Hallgrímsson sem reyndar stefnir á að vera með Wisla Plock í næsta leik liðsins.
Bjarki Már Elísson er nýlega stiginn upp úr hnémeiðslum. „Ég hefði getað valið hann en kaus að kalla í Stiven Tobar Valencia að þessu sinni auk Orra Freys Þorkelssonar sem stóð sig frábærlega á HM,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari.
Fréttin hefur verið uppfærð.