Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður, fagnaði sigri með meisturum Aalborg Håndbold í kvöld þegar liðið hóf titilvörnina í dönsku úrvalsdeildinni með sjö marka sigri á Skanderborg AGF, 37:30, á heimavelli. Ágúst Elí var í marki Aalborg nærri því hálfan leikinn og varði tvö skot, 13%.
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði tvö mörk í fjórum skotum fyrir Skanderborg, átti eina stoðsendingu og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur.
Helstu sérfræðingar í dönskum handknattleik reikna með að Álaborgarliðið beri höfuð og herðar yfir keppninauta sína á tímabilinu sem framundan er. Liðið er afar vel skipað en gat ekki teflt fram öllum trompum sínum í leiknum. T.d. er Þjóðverinn Juri Knorr meiddur.
Thomas Arnoldsen var markahæstur með níu mörk í 10 skotum og Lukas Nilsson skoraði átta mörk í níu tilraunum.
HØJ-liðar töpuðu í Ølstykke
Nýliðar HØJ, sem mikið hefur verið látið með í Danmörku enda hefur félagið sópað til sín stórstjörnum, tapaði á heimavelli fyrir Mors-Thy í kvöld, 27:26. Jótarnir sýndu Sjálandsliðinu enga miskunn, ekki síst í fyrri hálfleik og unnu nauman en sanngjarnan sigur. HØJ-ingar skoruðu aðeins 11 mörk í fyrri hálfleik í Ølstykke-höllinni.