Ribe-Esbjerg sem Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson leika með vann stórsigur á Grindste, 31:21, á heimavelli í síðustu umferð umspils liðanna í neðri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar í dag en leikið var í Esbjerg. Sigurinn færði Ribe-Esbjerg efsta sætið af fimm liðum umspilsins. Grindsted leikur hinsvegar við lið úr næst efstu deild, Skive, um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Kolding féll rakleitt niður að lokinni deildarkeppninni á dögunum.
Ágúst Elí fékk gott tækifæri í marki Ribe-Esbjerg og nýtti það vel. Hann varði 11 skot, 36,6%.

Elvar hélt upp á nýjan þriggja ára samning við félagið með tveimur mörkum, tveimur stoðsendingum og einni tveggja mínútna brottvísun. Einnig lét Elvar til sín taka í vörninni en vörn og markvarsla var aðal Ribe-Esbjerg í fyrri hálfleik. Staðan að fyrri hálfleik loknum var 17:7.