Ágúst Elí Björgvinsson og Elvar Ásgeirsson voru í stórum hlutverkum og stóðu undir þeim í dag þegar Ribe-Esbjerg vann Kolding, 28:26, á heimavelli í þriðju umferð riðils tvö í úrslitakeppni efstu liðanna um danska meistaratitilinn í handknattleik.
Ágúst Elí stóð í marki Ribe-Esbjerg svo að segja allan leikinn og varði 11 skot, 32%. Elvar skoraði fimm mörk og átti þrjár stoðsendingar. Elvar var markahæsti maður liðsins. Arnar Birkir Hálfdánsson var ekki í leikmannahópi Ribe-Esbjerg.
Aalborg tapaði
Skjern settist í efsta sæti riðilsins með sex stig þegar liðið vann Aalborg, 33:30, í Skjern í dag. Aalborg er með fimm stig og Ribe-Esbjerg þrjú. Kolding rekur lestina með eitt stig. Þrjár umferðir eru eftir.
Í hinum riðlinum eru meistarar GOG efstir með sjö stig. Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub eru í öðru sæti með fjögur stig, Bjerringbro/Silkeborg er með þrjú stig og Skanderborg Aarhus er neðst með eitt stig.
Að loknum sex umferðum í báðum riðlum mætast fjögur efstu liðin í undanúrslitum og úrslitum.
Hlé verður nú gert á úrslitakeppninni vegna landsleikja í undankeppni EM á komandi dögum.