- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ágúst Þór er kominn með Val í úrslit í sjöunda sinn

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals. Ljósmynd/Valur - [email protected]
- Auglýsing -


Frá því að Ágúst Þór Jóhannsson tók við þjálfun kvennaliðs Vals sumarið 2017 hefur liðið leikið á hverju vori til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn með einni undantekningu, vorið 2020 þegar úrslitakeppnin var felld niður vegna covid. Valur leikur þar af leiðandi til úrslita síðar í þessum mánuði í sjöunda sinn á átta árum. Óvíst er hvort Fram eða Haukar verður andstæðingur Vals að þessu sinni.


Vorið 2018 tapaði Valur fyrir Fram, 3:1, í vinningum talið í úrslitum. Valur svaraði fyrir sig árið eftir þegar Ágúst Þór og liðsmenn Val voru með sópinn á lofti og sópuðu Fram út, 3:0.

Vorið 2021 tapaði Valur fyrir KA/Þór í úrslitum í tveimur leikjum. Úrslitakeppnin var stytt vegna covid en deildarkeppnin og úrslitakeppnin tafðist fram á sumar sökum veirupestarinnar.

Árið 2022 lék Valur á ný til úrslita en tapaði fyrir Fram, 3:1, í fjögurra leikja rimmu.

Valur vann ÍBV í þremur leikjum vorið 2023. Á síðasta ári voru leikmenn Vals með sópinn á lofti annað árið í röð og unnu Hauka í þremur leikjum.

Glíman við Stefán

Í þau sex skipti á síðustu sjö árum sem Valur hefur leikið til úrslita, 2018 til 2024 hefur Stefán Arnarson verið þjálfari liðs andstæðinganna. Stefán, sem er einn sigusælasti handknattleiksþjálfari landsins, var þjálfari Fram í úrslitum 2018, 2019, 2022 auk þess að vera annar þjálfara Hauka sem mætti Val í úrslitum fyrir ári. Ekki er hægt að útiloka að Ágúst Þór og Stefán mætist í fimmta sinn á síðustu sjö árum í úrslitum Olísdeildar kvenna síðar í þessum mánuði.

Úrslit í Evrópu á næsta leiti

Fyrsti úrslitaleikurinn um Íslandsmeistaratitil kvenna er ráðgerður þriðjudaginn 20. maí. Áður en að fyrstu viðureigninni kemur leikur Valur til úrslita í Evrópubikarkeppni við Conservas Orbe Zendal BM frá Porrino á Spáni. Fyrri leikurinn verður 11. maí ytra en sá síðari á Hlíðarenda laugardaginn 17. maí.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -