Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals var í kvöld útnefndur þjálfari ársins 2025 af félögum í Samtökum íþróttafréttamanna. Ágúst Þór stýrði Val til sigurs í Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á síðasta ári. Var það í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið vinnur Evrópukeppni félagsliða. Valur vann 11 af 12 leikjum sínum í keppninni. Til viðbótar varð Valur deildarmeistari í Olísdeild kvenna og Íslandsmeistari á síðasta ári undir stjórn Ágústs Þórs áður en hann lét af störfum og tók við þjálfun karlaliðs Vals.
Þetta er í sjöunda sinn frá því að þjálfari ársins var valinn í fyrsta skipti 2013 sem handknattleiksþjálfari hreppir hnossið. Aðrir handknattleiksþjálfarar sem hlotið hafa nafnbótina eru Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson, Kristján Andrésson og Þórir Hergeirsson. Sá síðastnefndi hefur hlotið nafnbótina þrisvar sinnum.
Ágúst Þór hlaut 97 af 120 stigum sem mögulegt var að fá. Annar varð Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Króatíu og Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Írlands hlaut þriðja sætið en níu þjálfarar fengu stig að þessu sinni.
Röð þjálfaranna varð þessi:
Ágúst Þór Jóhannsson 97 stig.
Dagur Sigurðsson 71 stig.
Heimir Hallgrímsson 38 stig.
Einar Jónsson 24 stig.
Freyr Alexandersson 15 stig.
Baldur Þór Ragnarsson 11 stig.
Sigurbjörn Bárðarson 7 stig.
Ingi Gunnar Ólafsson 4 stig.
Sölvi Geir Ottesen 3 stig.
Evrópubikarmeistarar Vals er lið ársins 2025
Hverjir hafa verið kjörnir þjálfara ársins?




