Akureyringarnir, Aldís Ásta Heimisdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir, léku með Skara HF í kvöld þegar liðið komst glæsilega í átta liða úrslit sænsku bikarkeppninnar eftir sex marka sigur á Kungälvs HK, 35:29, á heimavelli. Um var að ræða síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum en leikið er heima og að heiman í bikarkeppninni.
Skara HF vann einnig fyrri leikinn, 31:30, á heimavelli Kungälvs HK. Staðan að loknum fyrri hálfleik í kvöld var 19:15. Kungälvs HK byrjaði leikinn betur og skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkunum. Þá sögðu leikmenn Skara, hingað og ekki lengra.
Aldís Ásta skoraði fjögur mörk og Ásdís eitt mark. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, sem gekk til liðs við Skara HF á dögunum, er ekki gjaldgeng með liðinu í bikarkeppninni. Hún hefur þegar leikið með Önnereds í bikarkeppninni og er þar með ekki gjaldgeng með öðru liði í keppninni á leiktíðinni.