- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ákvað að stökkva á þetta tækifæri“

Andri Már Rúnarsson er á leiðinni til Hauka. Mynd/EHF Kolektiffimages
- Auglýsing -

„Þetta er stórt skref fyrir mig. Stefnan hefur alltaf verið að komast í atvinnumennsku. Það er gaman að fá tækifæri svona snemma á ferlinum,“ sagði Andri Már Rúnarsson við handbolta.is í dag eftir að upplýst var að hann hafi skrifað undir fjögurra ára samning við þýska efstu deildarliðið Stuttgart.

Úti um verslunarmannahelgina

„Þeir höfðu sýnt mér áhuga og úr því að ég var laus um verslunarmannahelgina þá fór ég út til æfinga og hitti forráðamenn félagsins. Í framhaldinu sló ég til eftir að menn höfðu haft samband við mig aftur og sagt að þeir vildu semja við mig,” sagði Andri Már sem þekkir vel til í Þýskalandi enda búið þar meiri hluta ævinnar. Faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, var um árabil leikmaður þar í landi og síðar þjálfari.


„Það skemmir ekkert fyrir mér að kunna tungumálið og þekkja aðeins til menningarinnar. Pabbi var þjálfari um skeið hjá Balingen sem er ekki langt frá í Suður-Þýskalandi.“

EM er efst á blaði í dag

Andri Már, sem er á nítjánda ári, er þessa dagana með samherjum sínum í U19 ára landsliðinu í Evrópukeppni sem fram fer í Króatíu. Um leið og keppninni verður lokið mun Andri Már fara til Stuttgart. „Þjálfarinn vill fá mig sem fyrst til félagsins og við verðum að sjá til hversu fljótt eftir EM það getur orðið. Fyrst og fremst einbeiti ég mér að EM þess dagana áður en ég fer að leiða hugann að því sem bíður mín hjá Stuttgart.“

Þakklátur Fram

Andri Már hefur síðasta árið leikið með Fram og átti ár eftir. Ákvæði í samningi hans við Fram gerði Andra Má kleift að losna hjá Safamýrarliðinu strax. „Ég er þakklátur Fram fyrir að koma til móts við mig því ég veit að það er ekki auðvelt fyrir liðið að standa frammi fyrir því að maður hverfur í burtu svona stuttu áður en tímabilið hefst,“ sagði Andri Már Rúnarsson verðandi leikmaður Stuttgart í Þýskalandi og nýjasti atvinnumaður Íslendinga í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -