- Auglýsing -
- Auglýsing -

Álaborgarliðið sterkara í lokin – Evrópumeistararnir leika ekki til úrslita

Leikmenn Aalborg fagna sigri á Evrópumeisturum Magdeburg og sæti úrslitum Meistaradeildarinnar á morgun. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Evrópumeistarar Magdeburg vinna ekki Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla annað árið í röð og leika þar með eftir afrek Barcelona frá 2021 og 2022. Það liggur fyrir eftir tap liðsins, 28:26, fyrir danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold í fyrri undanúrslitaleiknum í Lanxess-Arena í dag. Síðar í dag skýrist hvort Barcelona eða THW Kiel verður andstæðingur Aalborg í úrslitaleiknum sem fram fer á morgun og hefst klukkan 16. Hægt verður að fylgjast með leiknum á ehft.tv.

Aalborg leikur í annað sinn til úrslita í Meistaradeildinni en liðið komst einnig svo langt 2021 en tapaði fyrir Barcelona í úrslitaleik. Eins og gefur að skilja var kátt á hjalla meðal fjölmargra stuðningsmanna liðsins sem voru áberandi í sínum rauðu búningum í Lanxess Arena á meðal 20 þúsund áhorfenda.

Er bara grautfúl niðurstaða

Jafnt var á öllum tölum í leiknum í dag allt þar til Aalborg-liðið náði í fyrsta sinn tveggja marka mun, 27:25, þegar hálf önnur mínúta var til leiksloka. Var það í fyrsta sinn sem munaði tveimur mörkum á liðunum í þessum æsilega spennandi leik. Niklas Landin sem hafði ekki verið nema skugginn af sjálfum sér varði tvö mikilvæg skot á lokakaflanum sem sennilega riðu baggamuninn.

Uppfært:  Úrslitaleikirnir sunnudaginn 9. júní:
SC Magdeburg - THW Kiel, kl. 13. - 3. sæti.
Barcelona - Aalborg Håndbold kl. 16 - 1. sæti.
Hægt verður að horfa á báða leiki án endurgjalds á EHFtv.com.

Magdeburg-liðið átti í erfiðleikum með framliggjandi vörn Aalborg frá upphafi til enda. Þess utan þá var markvarslan slök, ekki síst í síðari hálfleik sem gerði að verkum að fátt var um hraðaupphlaup af hálfu þýska liðsins, nokkuð sem er helsta vörumerki þess.

Ljóst er að sóknarleikurinn brást Magdeburg-liðinu í leiknum. Það heyrir til undantekninga ef liðið skorar innan við 30 mörk í leik.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með 10 mörk. Janus Daði Smárason lék talsvert með í síðari hálfleik en var lítt nýttur í fyrri hálfleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson var áberandi í sóknarleik Magdeburg en átti eins og fleiri í erfiðleikum gegn framliggjandi vörn Aalborg.

Mörk Magdeburg: Ómar Ingi Magnússon 10, Felix Claar 4, Matthias Musche 4, Janus Daði Smárason 3, Daniel Pettersson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Magnus Saugstraup 1.
Varin skot: Sergey Hernandez 9, 24,3%.
Mörk Aalborg Håndbold: Mads Hoxer 8, Sebastian Barthold 6, Thomas Arnoldsen 5, Mikkel Hansen 5, Henrik Möllergaard 1, Kristian Björnsen 1, Aleks Vlah 1, Lukas Nillsson 1.
Varin skot: Fabian Norsten 8, 36,3% – Niklas Landin 6, 26,6%.

Handbolti.is var í Lanxess-Arena og fylgdist með leiknum í textalýsingu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -