Þrátt fyrir að hafa leikið tólf sinnum til úrslita í bikarkeppninni þá hefur Fram aðeins einu sinni unnið úrslitaleikinn. Sigurinn eini til þess kom árið 2000 og þá, merkilegt nokk, eftir leik við Stjörnuna í Laugardalshöll, 27:23.
Serbastian Alexandersson núverandi þjálfari kvennaliðs Víkings átti stórleik í marki Fram í úrslitaleiknum fyrir aldarfjórðungi og var öðrum fremur maðurinn á baki við sigurinn ásamt Rússanum Oleg Titov. Sebastian varði 24 skot
Gunnar Berg Viktorsson var markahæstur leikmanna Fram með 11 mörk. Hans gamli fóstbróður frá Vestmannaeyjum, Arnar Pétursson núverandi landsliðsþjálfari kvenna og aðstoðarþjálfari kvennaliðs Fram um þessar mundir, var markahæstur Stjörnumanna með sjö mörk.
Ekkert félag hefur oftar tapað úrslitaleik í bikarkeppninni í karlaflokki en Fram, alls 11 sinnum, m.a. í fyrsta sinn sem leikið var til úrslita í bikarkeppninni 1974. Fram tapaði þá fyrir Val, 24:16.
Síðast lék Fram til úrslita í bikarkeppninni 2021 og beið lægri hlut fyrir Val, 29:25, á Ásvöllum. Leikið var til úrslita í byrjun október vegna þess að ekki var hægt að keppa í byrjun mars eins og til stóð vegna samkomutakmarkanna sökum covid. Aðeins þrír leikmenn Fram-liðsins í dag tóku þátt í úrslitaleiknum haustið 2021.
Úrslitaleikur Stjörnunnar og Fram í Poweradebikar karla hefst á Ásvöllum í dag klukkan 16.