Aldís Ásta Heimisdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, landsliðskonur í handknattleik, skoruðu þrjú mörk hvor og stóðu svo sannarlega fyrir sínu þegar Skara HF vann Lugi á heimavelli í dag í 20. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar, 29:27. Tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni og er Skara HF í fimmta sæti og öruggt um sæti í úrslitakeppni átta efstu liðanna um meistaratitilinn.
Lugi-liðið má á hinn bóginn muna sinn fífil fegri því vist í næst efstu deild virðist bíða liðsins á næstu leiktíð. Lugi rekur lestina með fimm stig, þremur á eftir Kungälvs sem sennilega fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
Auk markanna þriggja átti Aldís Ásta fimm stoðsendingar og Jóhanna Margrét þrjár. Hvorugri var vikið af leikvelli.
Tveir leikir eftir fyrir páska
Næsti leikur Skara HF verður eftir viku í Västerås áður en lokaumferðin fer fram miðvikudaginn 27. mars. Skara-liðar fá þá Kristianstad í heimsókn. Berta Rut Harðardóttir leikur með Kristianstad.
Eftir síðasta leikinn kemur íslenska landsliðið saman til undirbúnings fyrir tvo síðustu leikina í undankeppni EM.
Stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.