Eins og reiknað var með þá skildi nánast himinn og haf að landslið heimsmeistara Danmerkur annarsvegar og landslið Finna hinsvegar þegar þjóðirnar leiddu saman hesta sína í undankeppni EM2022 í Vantaa í Finnlandi í dag.
Danir unnu með 18 marka mun, 40:22, þótt þeir væru ekki með sitt allra sterkasta lið í leiknum frá upphafi til enda. Þetta var fimmtugasti landsleikurinn eftir að Nikolaj Jacobsen tók við af Guðmundi Þórði Guðmundssyni sem landsliðsþjálfari Danmerkur.
Átta marka munur var á liðunum eftir fyrri hálfleik, 19:11. Danir hafa þar með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina. Finnar eru án stiga. Norður-Makedóníumenn, sem hafa tvö stig mæta landsliði Sviss í kvöld og geta með sigri komist upp að hlið Dana með fjögur stig.
Hinn færeyskaættaði hornamaður, Johan Hansen, fór á kostum í Vantaa í dag og skoraði 11 mörk fyrir danska landsliðið. Þar af skoraði Hansen átta mörk í fyrri hálfleik úr átta skotum. Annar hornamaður, Emil Jakobsen samherji Viktors Gísla Hallgrímssonar hjá GOG, skoraði átta mörk. Mathias Gidsel, samherji Viktors Gísla lék sinn fyrsta A-landsleik og varð þar með 38. landsliðsmaður Dana úr GOG.
Max Granlund var lang besti leikmaður finnska landsliðsins. Hann var einnig sá markahæsti með sjö mörk.
Mikkel Hansen, skærasta stjarna danska landsliðsins, tók ekki þátt í leiknum. Hann varð eftir heima í Danmörku vegna þess að hann brákaðist á fingri í viðureigninni við Sviss á fimmtudagskvöld.
Mörk Finnlands: Max Granlund 7, Oscar Kihlstedt 3, Sebastian Säkkinen 3, Fredrik Forss 2, Linus Lindberg 2, Robin Granlund 2, Teemu Tamminen 1, Ian Martin 1, Roni Syrjälä 1.
Mörk Danmerkur: Johan Hansen 11, Emil Jakobsen 8, Jacob Holm 5, Rasmus Lauge 4, Anders Zachariassen 3, Mathias Gidsel 3, Magnus Jensen 2, Magnus Landin Jacobsen 2, Nikolaj Markussen 1, Henrik Toft 1.