Þýska landsliðið í handknattleik karla, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, gerði sér lítið fyrir og vann króatíska landsliðið sem Dagur Sigurðsson þjálfar, með þriggja marka mun, 32:29, í fyrri vináttuleik þjóðanna í kvöld. Leikurinn fór fram í Zagreb Arena í Króatíu að viðstöddum 15.200 áhorfendum. Þýska liðið var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:14.
Króatar voru tveimur mörkum yfir þegar tíu mínútur voru til leiksloka, 26:24. Hægri hornamaðurinn Mathis Häseler jafnaði metin, 26:26, með tveimur mörkum í röð áður en Luka Cindric kom Króötum yfir í síðari sinn sex mínútum áður en leiktíminn var úti, 27:26. Lukas Mertens, Häseler og Julian Köster skoruðu þrjú mörk í röð og komu Þjóðverjum yfir. Eftir það tókst Króötum ekki að jafna metin. Þýska liðið skoraði tvö síðustu mörkin áður en leiktíminn var úti.
Renars Uscins, Johannes Golla og Juri Knorr skoruðu fimm mörk hver og voru markahæstir í þýska liðinu.
Ivan Martinovic var markahæstur hjá Króötum með sex mörk. Nenad Sostaric og Tin Lucin skoruðu fimm mörk hvor.
Aftur á sunnudaginn
Lið þjóðanna eigast öðru sinni við í Hannover í Þýskalandi á sunnudaginn. Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson dæma leikinn.



