Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla segir að hann geti vel hugsað sér að þjálfa þýska landsliðið í nokkur ár til viðbótar. Hann segir í samtali við Kieler Nachrichten í dag að viðræður um nýjan samning til ársins 2027 verði teknar upp að Evrópumótinu loknu. Evrópumótið í handknattleik karla stendur yfir í Þýskalandi frá 10. til 28. janúar.
Alfreð tók við þjálfun þýska landsliðsins í snemma árs 2020. „Ég var spurður hvort við gætum rætt saman um framhaldið strax að EM loknu. Það eru engin ljón í veginum af minni hálfu fyrir að setjast niður og ræða nýjan samning,“ segir Alfreð sem er 64 ára gamall.
Núverandi samningur Alfreðs við þýska handknattleikssambandið gildir fram yfir Ólympíuleikana næsta sumar, takist þýska landsliðinu að tryggja sér keppnisrétt á leikunum. Það er öruggt um sæti í forkeppni ÓL í mars.
Alfreð er í óða önn að búa þýska landsliðið undir Evrópumótið en miklar vonir eru bundnar við að þýska liðið verði í fremstu röð á mótinu. Þjóðverjar leika upphafsleik mótsins við Sviss á sérútbúnuum knattspyrnuleikvangi í Düsseldorf 10. janúar að viðstöddum 50 þúsund áhorfendum.
Heimsmeistaramótið í handknattleik karla fer fram í Þýskalandi 2027. Virðist horft fram yfir það mót af hálfu Alfreð og þýska handknattleikssambandsins.
21 árs landslið Þýskalands var heimsmeistari í sumar. Þar af leiðandi geta verið spennandi tímar framundan fyrir öflugan landsliðsþjálfara.
Michalczik meiddur tekur ekki þátt í EM
Þýska landsliðið varð fyrir áfalli í dag þegar leikstjórnandinn Marian Michalczik, leikmaður Hannover-Burgdorf, meiddist og varð að draga sig út úr landsliðshópnum. Hann tekur ekki þátt í EM.