Íslenska landsliðið í handknattleik karla lauk keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik í kvöld með fjögurra marka torsóttum sigri á landsliði Brasilíu, 41:37, eftir að hafa verið undir, 22:18, að loknum fyrri hálfleik. Snemma í síðari hálfleik var forskot Brasilíumanna komið í fimm mörk. Íslensku landsliðsmönnunum tókst að snúa við blaðinu. Gísli Þorgeir Kristjánsson kom Íslandi yfir í fyrsta sinn á 53. mínútu, 35:34.
Síðar í kvöld kemur í ljós hvort þriðja eða fjórða sætið í riðlinum kemur í hlut Íslands en eftir því verður raðað niður í sæti mótsins. Ljóst er að sæti í forkeppni Ólympíuleikanna er fjarlægur draumur en ennþá er möguleiki á sæti á Ólympíuleikunum í gegnum EM á næsta ári, þ.e. með því að verða Evrópumeistari eða í efsta sæti á mótinu af þeim liðum sem þá þegar verða örugg um sæti í forkeppninni.
Draumur um verðlaun á HM að þessu sinni eða sæti í átta liða úrslitum rann út í sandinn með tapleiknum við Ungverja í Kristianstad.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan
Íslenska liðið lék illa í fyrri hálfleik í kvöld, ekki síst var varnarleikurinn slakur og markvarslan engin. Eins tapaðist boltinn of oft í sókninni.
Leikmenn sneru bökum saman í síðari hálfleik, ráku af sér slyðruorðið og unnu kærkominn sigur og sannfærandi þegar upp var staðið. Þeir sýndu virkilegan baráttuanda og sigurvilja sem gaman var að sjá.
Það alltaf gott að ljúka mótum með sigri.
Í lokin þökkuðu þeir stuðningsmönnum sínum fyrir sem þúsundum saman hafa mætt á leiki keppninnar. Var vel við hæfi að Ferðlok hljómuðu í hljóðkerfi keppnishallarinnar í lokin og íslensku áhorfendurnir kvöddu með því að syngja við raust.
Mörk Ísland: Bjarki Már Elísson 9/3, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 8, Sigvaldi Björn Guðjónsson 6, Janus Daði Smárason 5, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Elvar Örn Jónsson 2, Viggó Kristjánsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 6, 19,4%, Björgvin Páll Gústavsson 2, 15,4%.
Mörk Brasilíu: Jean Pierre Dupoux 8, Gustavo Rodrigues 6, Joao Pedro Silva 5, Hugo Bryan Monta Da Silva 4, Fabio Chiuffa 3, Rogerio Moraes 3, Thiago Ponciano 2, Rudolph Hackbarth 2, Thiagus Petrus 1, Raul Nantes 1, Leonardo Silveira 1, Guilherme Torriani 1.
Handbolti.is var í Scandinavium og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.