„Allir í liðinu hafa sína drauma og stefna hátt. Það er ekkert að því,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik spurður út í orð sín á blaðamannafundi í dag, að markmiðið væri að vinna riðilinn á fyrsta stigi Evrópumótsins í næsta mánuði.
Snorri lét orðin falla þegar hann tilkynnti um valið á keppnishópnum. Íslenska landsliðið verður í riðli með Ítalíu, Ungverjalandi og Póllandi. Tvö liðanna komast áfram í milliriðlakeppnina en tvö fara heim miðvikudaginn 21. janúar.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á EM verður föstudaginn 16. janúar gegn ítalska landsliðinu.
Munum eiga fullt í fangi
„Hins vegar er alveg ljóst að við munum eiga fullt í fangi með að komast upp úr riðlinum sem er snúinn. Ég hef farið vel yfir nýjustu leiki með öllum andstæðingum okkar. Ljóst er að fyrsti leikurinn, gegn Ítalíu, verður krefjandi. Ítalska liðið verður erfiður mótherji með fínt lið sem hefur mörg vopn í sínu búri.
Skiptir miklu máli
Engu að síður segir það sig sjálft að það skiptir miklu máli að vinna riðilinn. Það opnar dyr fyrir framhaldið á mótinu vegna þess að andstæðingar okkar verða heldur ekkert djók. Meðal andstæðinga verða að minnsta kosti Svíar á heimavelli, Króatar, Slóvenar og fleiri öflug landslið. Leiðin er bara löng,“ sagði Snorri Steinn og bætir við.
Leikdagar og leiktímar sem miðast við staðartíma á Íslandi:
16. janúar: Ísland – Ítalía, kl. 17.
18. janúar: Pólland – Ísland, kl. 17.
20. janúar: Ungverjaland – Ísland, kl. 19.30.
– Allir leikirnir fara fram í Kristianstad Arena.
Tvö lið komast áfram úr riðlinum. Verður íslenska landsliðið annað þeirra leikur það 23., 25., 27. og 28. janúar í Malmö.
-Vegna fyrirspurna frá lesendum er rétt að ítreka að sólarhringur liður á milli tveggja síðustu leikja íslenska landsliðsins í milliriðli, 27. og 28.janúar, ef til kemur. Ekki er um innsláttarvillu að ræða.
Vil ekki hafa það öðruvísi
„Að allir séu bjartsýnir er frábært. Ég vildi ekki hafa það öðruvísi. Hins vegar segir sagan allt annað. Hún segir okkur að leiðin er erfiðari en við höldum. Þar af leiðandi verður okkar fyrsta markmið að vinna riðilinn. Þegar riðlakeppninni verður lokið tökum við stöðuna og skoðum þá möguleika sem verða fyrir hendi,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í viðtali við handbolta.is í dag.
„Þátttaka Þorsteins á EM er í óvissu eins og er“




