Þegar Elvar Ásgeirsson samdi við danska úrvalsdeildarliðið Ribe-Esbjerg fyrir helgina var rifjað upp að í gegnum tíðina hafa nokkrir íslenskir handknattleiksmenn leikið með sameinuðu liði félaganna og öðrum forvera þess Ribe HK. Gunnar Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður og núverandi þjálfari kvennaliðs Hauka, var einn þeirra fyrstu, ef ekki sá fyrsti, sem lék með liði Ribe.
Bærinn er á vesturströnd Jótlands, skammt suðaustur af hafnarbænum Esbjerg.
Gunnar lék með Ribe-liðinu 1983 til 1986. Hann segir minnsta Ribe-áranna með með gleði og hlýju. Þar hafi hann eignast marga vini sem hann haldi sambandi við ennþá.
„Árin í Ribe voru frábær og eru afar minnistæð. Allt gekk út á handbolta í bænum enda vakti koma Anders Dahl mikla athygli en hann þjálfaði liðið á þessum árum,“ sagði Gunnar í samtali við handbolta.is
Vakti mikla athygli
„Margt var gert utan vallar sem innan. Má þar meðal annars nefna að það var mynd af liðinu á öllum innkaupapokum verslunarkeðjunnar Kvickly veturinn 1984 til 1985 þegar félagið gerði styrkatarsamning við verslunina. Kvickly er svipaðar verslanir og Bónus hér á landi. Þetta uppátæki vakti þetta mikla athygli. Það voru allir að spóka sig um bæinn með mynd af liðinu,“ sagði Gunnar sem hafði gaman af því að rifja upp tíma sinn hjá Ribe þegar handbolti.is heyrði honum.
Elsta kirkja landsins og storkapar
Ribe er einn elsti bær Danmerkur og er m.a. þekktur fyrir elstu dómkirkju landsins en bygging hennar hófst árið 1150 og lauk 75 árum síðar. Bærinn var einnig þekktur fyrr storkapar sem verpti og kom upp ungum sínum ár eftir ár í hreiðri í húsi við bæjartorgið öllum bæjarbúum til gleði.
Nokkrir Íslendingar hafa í gegnum tíðina leikið með Ribe og síðar Ribe Nokkrir Íslendingar hafa í gegnum tíðina leikið með Ribe og síðar Ribe Esbjerg eftir að félögin sameinuðu krafta sína í einu karlaliði. Meðal þeirra eru: - Gísli Felix Bjarnason, markvörður, og Gunnar Gunnarsson léku með Ribe á níunda áratug síðustu aldar. Síðar léku Egill Jóhannsson og Dagur Jónasson með Ribe. - Karl Jóhann Guðmundsson, Hafsteinn Ingason og Tryggvi Haraldsson sömdu við Ribe árið 2006 en þá lék liðið í næst efstu deild. - Einar Logi Friðjónsson samdi við Ribe-Esbjerg til tveggja ára árið 2009. - Gunnar Steinn Jónsson og Rúnar Kárason léku með Ribe Esbjerg frá 2018 til 2021. Daníel Þór Ingason kom til félagsins 2019 og var í tvö ár.
Dahl-Nielen kom til KR
„Anders Dahl-Nielsen þjálfaði KR eitt tímabil. Hann var stærsta nafnið í dönsku handknattleik á þessu árum. Koma hans hingað var mikil sprengja þótt hér hafi ríkt Bogdans og Borisartímar í handboltanum ár þessum árum.
Var kallaður á fund
Eftir árið hjá KR var Anders Dahl ráðinn þjálfari Ribe. Hann kallaði mig til fundar við sig og sagði. Ég er að fara að þjálfa Ribe næstu árin og langar að fá þig þangað, erum að fara að byggja upp gott lið og þurfum góða og metnaðarfulla leikmenn í þetta verkefni,“ sagði Gunnar sem sló til en hann var 22 ára gamall þegar þetta var.
Hjólaði á æfingar
„Þetta var stórt, fékk flugmiða og tveggja herbergja íbúð og hjólaði á æfingar,“ sagði Gunnar og hló þegar hann rifjar þetta upp.
Löng tenging við Ribe
„Segja má að upphafið að þessum tengslum Ribe við Ísland hafi verið þegar Bent Nyegaard kom hingað til lands eftir 1980 og þjálfði ÍR áður en hann flutti sig svo yfir til Fram. Anders Dahl kom í kjölfarið. Ekki má gleyma því að áður en ég fór út, komu Jan Larsen, markmaður, Flemming Bevesen og Kjeld Morgensen til Íslands og spiluðu með KA. Larsen lék líka með Þór Akureyri. Þremenningarnir komu ekki allir frá Ribe, en þeir enduðu allir þar og eru enn. Svo tenging Ribe við íslenskan handknattleik á sér langa sögu,“ segir Gunnar um vini sína í Ribe.
„Þetta var hörkulið strax hjá okkur í Ribe. Við vorum í næst efstu deild fyrsta árið. Anders Dahl var þjálfari, Nyegaard var aðstoðarþjálfari. Síðan kom Gísli Felix Bjarnason út til okkar árið á eftir, 1984. Mogens Jeppesen landsliðsmarkvörður Dana var með okkur 1985 til 1986. Fleiri góðir og efnirminnilegir leikmenn voru með okkur,“ sagði Gunnar og bætir við.
Fóru í úrslit í bikarnum
„Við vorum í næst efstu deild tímabili 1983 til 1984 og fórum upp í efstu deild þá um vorið. Auk þess að leika í úrvalsdeildinni 1984/1985 þá fórum við í úrslit í bikarkeppninni en töpuðum fyrir HIK sem var með hörkulið á þessum tíma, meðal annars léku Klaus Sletting Hansen og Michel Fenger með HIK.
RÚV sýndi úrslitaleikinn
Úrslitaleikurinn var spilaður í Ribe sem var með leyfi fyrir 1.500 áhorfendum en mönnum tókst að troða inn 2000 manns . Á þessum tíma bjuggu 10 þúsund í Ribe. Leikurinn vakti slíka athygli að hann var sendur beint út á Íslandi og fréttamaður RÚV lýsti leiknum af staðnum,“ sagði Gunnar Gunnarsson þjálfari Hauka sem síðar átti eftir að leika og þjálfa einnig í Svíþjóð og Noregi auk liða hér á landi. Gunnar var m.a. í íslenska landsliðinu sem lék um bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona 1992.