- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Allt hægt með kraftmiklum stuðningi áhorfenda – langar lengra í keppnini

Valur mætir spænska liðinu Málaga Costa del Sol öðru sinni í N1-höllinni á morgun og þarf allar hendir á dekk. Ljósmynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Við erum að búa okkur undir mjög erfiðan leika gegn feikilega öflugu liði Málaga Costa del Sol. Ég held að við höfum komið þeim á óvart í fyrri leiknum og þær hugsanlega vanmetið okkur aðeins. Það breytir ekki því að við skoðum vel okkar leik til þess að vera eins vel undirbúin og mögulegt er,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í samtali við handbolta.is.

Valur tekur á móti spænska liðinu Málaga Costa del Sol á morgun, laugardag, í N1-höllinni í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Flautað verður til leiks klukkan 16.30. 

Jafntefli var í fyrri leiknum á Spáni á síðasta laugardag, 25:25, og því á Valur góða möguleika á að komast áfram í átta liða úrslit takist liðinu að halda rétt á spilunum.

Í öðru sæti

Málaga Costa del Sol varð spænskur meistari vorið 2023 og situr um þessar mundir í öðru sæti efstu deildar, einu stigi á eftir BM Elche. Meistarar síðasta árs, Amara Bera Bera, eru í þriðja sæti með jafn mörg stig og Málaga Costa del Sol. Fyrir þremur árum vann Málaga-liðið Evrópubikarkeppnina.

Endurtaka leikinn og gott betur

„Við lékum mjög góðan sóknarleik í fyrri leiknum og verðum að halda því áfram. Okkur tókst að opna mjög fyrir 6/0 vörn Málaga-liðsins og eins 5/1 vörnina. Svo þarf varnarleikur okkar að halda eins og ytra. Við verðum að vera tilbúnar í þá baráttu. Þær eru sterkar maður á mann. Lykillinn er að leika þétta 6/0 vörn en geta einnig farið í 3/2/1 vörn ef þurfa þykir,“ segir Ágúst Þór.

Elísa og Sigríður bætast við

Elísa Elíasdóttir og Sigríður Hauksdóttir bætast í hópinn hjá Val fyrir leikinn á morgun. Þær voru ekki með ytra fyrir viku. Lilja Ágústsdóttir er hinsvegar ennþá frá keppni vegna ökklameiðsla.

Orkumikið og klárt í verkefnið

„Liðið er orkumikið og vonandi klárt í verkefnið. Við þurfum á toppleik að halda til þess að klára verkefnið. Við þurfum toppframmistöðu til þess að komast í gegnum þetta verkefni. Okkur langar að komast einu skrefi lengra í Evrópukeppninni.

Með góðum stuðningi áhorfenda, fullu húsi af fólki, þá er allt hægt,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -