Britney Cots, leikmaður FH og landsliðskona Senegal, telur sig ekki njóta sanngirni meðal dómara hér á landi. Cots er í ítarlegu viðtali við mbl.is þar sem hún rekur nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Framkoma í hennar garð hafi síst batnað eftir að hún varð fyrir því óláni að hönd hennar slóst í höfuð og auga Steinunnar Björnsdóttir, leikmanns Fram, í kappleik í Olísdeildinni í síðari hluta janúar.
Cots segir m.a. að í næsta leik á eftir hafi Sigurður Bragason þjálfari ÍBV ýtt við henni þegar hún hugðist biðja leikmann ÍBV afsökunar eftir að þær rákust saman í viðureign FH og ÍBV í Kaplakrika. Annar dómari leiksins hafi staðið nærri atvikinu. Það hafi ekki átt að fara framhjá honum. Dómarinn hafi hinsvegar ekki séð neitt athugavert. „Það hefði allt orðið vitlaust ef þetta hefði gerst í karlaleik,“ segir Cots í fyrrgreindu viðtali mbl.is.
Upptaka af umræddu atviki:
Cots segir stjórnendur FH hafa sett sig í samband við HSÍ vegna atviksins og enn sem komið er, tveimur vikum seinna, hafi eina svarið verið þögnin.
Hún nefnir fleiri dæmi frá þessari leiktíð og frá í fyrra. „Í einu atviki var ég tekin úr umferð og svo var brotið augljóslega á mér og ekkert var dæmt svo strax í kjölfarið í hraðaupphlaupi fékk ég dæmdar tvær mínútur á mig þegar ég var ekki nálægt neinum. Dómarinn ætlaði að gefa liðsfélaga mínum tvær, en hætti við og gaf mér tvær. Mér fannst það mjög skrítið, dónalegt og ósanngjarnt,“ segir Cots og bætir við síðar í sama viðtali.
„Mér líður mjög vel á Íslandi og ég er búin að vinna á sama stað síðan ég kom hingað fyrst, en inn á vellinum hefur þetta stundum verið skrítið. Í fyrra fékk ég t.d. rautt spjald í sókn þegar ég gerði ekki neitt. Það hafa verið hlutir hér og þar sem hafa verið mjög skrítnir. Jakob Lárusson, sem var þjálfarinn okkar í byrjun tímabilsins, reyndi að vekja athygli á þessu. Hann var sammála því að ég fékk ósanngjarna meðferð frá dómurunum,“ sagði Cots sem útilokar ekki að framkoman gagnvart henni sé af þeirri ástæðu að hún sé útlendingur.
Cots vill hrósa Steinunni fyrir framkomu sína og viðbrögð við atvikinu í viðureign Fram og FH. „Hún hefur verið virkilega góð og almennileg. Við höfum talað reglulega saman eftir þetta og hún tók þessu rosalega vel,“ sagði Britney Cots.
Viðtalið á mbl.is í heild er hægt að nálgast hér ásamt viðtali við Jakob Lárusson þáverandi þjálfara FH sem handbolti.is átti við hann í september þar sem Jakob segir Cots alls ekki njóta sannmælis.