„Framliðið spilaði vel í dag og þegar dæmið er gert upp átti það skilið að vinna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals eftir tap fyrir Fram, 22:20, í undanúrslitum Poweradebikarsins í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.
„Við fórum með aragrúa af marktækifærum. Darija [Zecevic] varði ábyggilega 20 skot. Það er ekki á hverjum degi sem við erum undir í markvörslu en það má segja að slæm nýting dauðafæra hafi orðið okkur að falli,” sagði Ágúst Þór sem stýrt hefur Val til sigurs í keppninni á þremur undangengnum árum og í fimm skipti á síðustu sex árum.
„Varnarleikur okkar var góður, bæði sex núll og fimm einn. Fram komst ekkert áleiðis. Okkur tókst ekki að útfæra hraðaupphlaupin okkar nógu vel og síðan fórum við illa með færin og skoruðum þar af leiðandi aðeins 20 mörk,“ sagði Ágúst.
Valsliðið byrjaði leikinn illa og lenti strax þremur mörkum undir og komst ekki á blað fyrr en eftir nærri átta mínútna leik. Fram átti hinsvegar slæmar fimmtán síðustu mínútur fyrri hálfleiks með aðeins tveimur mörkum skoruðum. Ágúst Þór sagði leikmenn sína hafa e.t.v. verið yfirspenntar framan af en tekist að stilla sig af og komast yfir fyrir hálfleik, 11:10.
„Við hefðum átt að fara inn með tveggja marka forskot í hálfleik. Það er óþolandi að fá á sig mark beint úr aukakasti,“ sagði Ágúst Þór óhress.
„Það voru bara of margar í mínu liði sem voru ekki á deginum sínum, hverju sem um er að kenna,“ sagði Ágúst Þór.
Lengra viðtal við Ágúst Þór er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Framarar settu Valsliðinu stólinn fyrir dyrnar – Zecevic átti stórleik