Afturelding fékk afhent sigurlaun fyrir að vinna Grill 66-deild kvenna í dag eftir að liðið lagði HK U, 39:21, í síðustu umferð deildarinnar á Varmá. Afturelding vann deildina með 29 stigum í 16 leikjum, varð fjórum stigum á undan ÍR sem tapaði fyrir FH, 23:21, í Skógarseli. Grótta hafnaði í þriðja sæti. ÍR, Grótta og FH taka þátt ásamt Selfossi í umspili um sæti í Olísdeildinni.
Þetta er í þriðja sinn á síðustu fjórum árum sem Afturelding vinnur sér sæti í Olísdeildinni en hefur fallið tvisvar niður eftir eins árs veru, 2020 og 2022.
„Bæði ég og allur hópurinn er reynslunni ríkari frá síðasta ári. Við höfum gríðarlega góða stuðning og ætlum okkur að halda áfram að byggja upp og bæta um leið við okkur leikmönnum. Það er erfitt að halda sér í Olísdeildinni en við stefnum ekkert á annað en halda okkur uppi að ári,“ sagði Guðmundur Helgi í samtali við handbolti.is á Varmá í kvöld. Hann er vongóður um að liðsstyrkur sé á næstu grösum enda er tekið að vora og grasið fer að spretta.
Stöðugleikinn byggist upp
„Það er allt til alls hér í Mósó til þess að byggja upp gott lið sem getur gert sig gildandi í Olísdeildinni. Okkur vantar stöðugleika. Hann er að byggjast upp jafnt og þétt. Með tveimur púslum í viðbót getum við gert góða hluti,“ sagði Guðmundur Helgi sem tók við þjálfun Aftureldingarliðsins síðla árs 2019.
Allir róa í sömu átt
„Það er engan bilbug á mér að finna. Ég tók þetta verkefni að mér og ætla að fylgja því eftir af fullum þunga. Þegar ég kom til Aftureldingar var ljóst að um langtímaverkefni væri að ræða. Ég sagði það við stjórnina. Þetta tekur sinn tíma en á meðan allir róa í sömu átt þá höldum við okkar striki,“ sagði Guðmundur Helgi.
Tapleikurinn nýttur til góðs
Afturelding tapaði einum leik snemma móts fyrir ungmennaliði Fram. Síðan hafa fjórtán leikir unnist og einn endað með jafntefli.
„Við notuðum tapleikinn við Fram sem mótiveringu fyrir okkur allt tímabilið. Í liðinu eru duglegir leikmenn sem æfa af krafti og hafa ríkan metnað til þess að ná árangri. Með slíkan hóp er hægt að gera hvað sem er,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Aftureldingar, sigurliðs Grill 66-deildar kvenna í samtali við handbolta.is.
Lokastaðan í Grill 66-deild kvenna.
Úrslit leikja í síðustu umferð:
Afturelding – HK U 39:21 (20:10).
Mörk Aftureldingar: Katrín Helga Davíðsdóttir 8, Sylvía Björt Blöndal 7, Susan Ines Gamboa 4, Anna Katrín Bjarkadóttir 4, Brynja Fossberg Ragnarsdóttir 4, Katrín Erla Kjartansdóttir 4, Drífa Garðarsdóttir 3, Dagný Lára Ragnarsdóttir 2, Lovísa Líf Helenudóttir 2, Þórhildur Vala Kjartansdóttir 1.
Varin skot: Tori Lynn Gísladóttir 12, Rebecca Fredrika Adolfsson 7.
Mörk HK U.: Rakel Dórothea Ágústsdóttir 9, Embla Steindórsdóttir 6, Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 2, Auður Katrín Jónasdóttir 2, Sandra Rós Hjörvarsdóttir 1, Stella Jónsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 10.
ÍR – FH 21:23 (8:12).
Mörk ÍR: Karen Tinna Demian 9, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 4, Vaka Líf Kristinsdóttir 3, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 3, Hanna Karen Ólafsdóttir 1, Guðrún Maryam Rayadh 1.
Varin skot: Hildur Öder Einarsdóttir 6, Ísabella Schöbel Björnsdóttir 5.
Mörk FH: Sigrún Jóhannsdóttir 7, Hildur Guðjónsdóttir 5, Hildur Þorgeirsdóttir 4, Ivana Meincke 4, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 2, Emma Havin Sardardóttir 1.
Varin skot: Bára Björg Ólafsdóttir 6, Sigurdís Sjöfn Freysdóttir 1.
Víkingur – Valur U 29:28 (11:16).
Mörk Víkings: Ída Bjarklind Magnúsdóttir 13, Auður Brynja Sölvadóttir 4, Ester Inga Ögmundsdóttir 4, Auður Ómarsdóttir 2, Guðrún Jenný Sigurðardóttir 2, Berglind Adolfsdóttir 1, Elísabet Ósk Ingvarsdóttir 1, Díana Ágústsdóttir 1, Rakel Sigmarsdóttir 1.
Varin skot: Anna Vala Axelsdóttir 6, Sara Xiao Reykdal 4.
Mörk Vals U.: Ásrún Inga Arnarsdóttir 7, Guðrún Hekla Traustadóttir 6, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 5, Arna Karitas Eiríksdóttir 5, Kristbjörg Erlingsdóttir 3, Sunna Thoroddsen Friðriksdóttir 1, Sara Lind Fróðadóttir 1.
Varin skot: Anna Karólína Ingadóttir 6.
Fram U – Fjölnir/Fylkir 30:16 (12:8).
Mörk Fram U.: Dagmar Guðrún Pálsdóttir 9, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 5, Sara Rún Gísladóttir 5, Íris Anna Gísladóttir 3, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Valgerður Arnalds 2, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 2, Eydís Pálmadóttir 2.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 15.
Mörk Fjölnis/Fylkis: Ada Kozicka 5, Kristjana Marta Marteinsdóttir4, Hanna Hrund Sigurðardóttir 2, Sara Björg Davíðsdóttir 2, Telma Sól Bogadóttir 1, Díana Sif Gunnlaugsdóttir 1, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 1.
Varin skot: Oddný Björg Stefánsdóttir 11, Þyrí Erla Sigurðardóttir 1.
Lokastaðan í Grill 66-deild kvenna.