- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alsælir Tékkar eru komnir til Vestmannaeyja

ÍBV liðið bíður spennt eftir Evrópuleikjunum um helgina. Mynd/Þóra Sif Kristinsdóttir
- Auglýsing -

„Tékkarnir eru komnir til Eyja eftir að hafa farið lengri leiðina með Herjólfi. Ferðin gekk vel og þeir voru alsælir við komuna áðan enda er ekki amaleg innsiglingin til Eyja í björtu veðri,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV í samtali við handbolta.is fyrir stundu. Hann var þá í óða önn ásamt félögum sínum að undirbúa tvo Evrópuleiki sem fram fara í Vestmannaeyjum á morgun og á sunnudag.


ÍBV mætir tékkneska liðinu Sokol Pisek í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna. Fyrri leikurinn hefst klukkan 15 á morgun og sá síðari klukkan 13 á sunnudaginn.

Breskir dómarar eru á leiðinni

„Nú bíð ég eftir að dómararnir og eftirlitsmaðurinn mæti á svæðið. Ég veit að þeir komu til landsins um miðjan daginn. Þeir eru væntanlega lagðir af stað til Vestmannaeyja ef allt gengur samkvæmt áætlun,“ sagði Vilmar Þór.
Eftirlitsmaðurinn er danskur og dómararnir breskir.

Rennt blint í sjóinn

Vilmar Þór sagði óvíst hver styrkleiki tékkneska liðsins væri. Leikmenn ÍBV renni nokkuð blint í sjóinn þótt vissulega hafi þjálfari ÍBV, Sigurður Bragason, komist yfir myndefni með leikjum Sokol Pisek. „Það verður ekki í fyrsta sinn sem Eyjamenn renna blint í sjóinn,“ sagði Vilmar Þór léttur í bragði að vanda.

Stukku strax á boðið

ÍBV hefur þegar lagt tvö grísk lið í fyrri umferðum keppninnar, annarsvegar PAOK og hinsvegar Panorama. Leikirnir við PAOK fóru báðir fram ytra en liðsmenn Panorama kusu að leika báðar viðureignirnar í Vestmannaeyjum.

„Fljótlega eftir að dregið var í 16-liða úrslit þá buðum við Tékkunum að leika báða leikina í Vestmannaeyjum. Þeir stukku á það strax. Við leggjum metnað í að taka vel á móti þeim eins og öðrum gestum sem sækja okkur heim,“ sagði Vilmar Þór.

Vonast eftir stuðningi

Vegna samkomutakmarkana fá aðeins handhafar neikvæðra covid prófa aðgang að leikjunum tveimur sem einnig verða sendir út á ÍBVtv.

„Við erum með miðasölu á Stubb og þótt fólk komist á leikinn þá vonum við að stuðningsmenn okkar sjái sér fært að kaupa miða á leikinn og styrkja okkur fjárhagslega í leikjunum með því að kaupa miða á Stubb. Það munar um hverjar þúsund krónur í þessari dýru útgerð sem þátttaka í Evrópukeppni er,“ sagði Vilmar Þór Bjarnason, framkvæmdastjóri handknattleiksdeildar ÍBV í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -