- Auglýsing -
- Auglýsing -

Óvænt þegar Gunni hringdi

Óskar Ólafsson leikmaður Drammen í Noregi. Mynd/Aðsend
- Auglýsing -

„Þetta var alveg frábært og mjög óvænt þegar Gunni hringdi og tilkynnti mér að ég væri í landsliðshópnum. Ég hef ekkert verið inn í myndinni síðan ég var í unglingalandsliðunum og hafði ekki leitt mikið hugann að landsliðinu,“ sagði Óskar Ólafsson, handknattleiksmaður hjá Drammen þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær.


Óskar var á dögunum valinn í íslenska landsliðið í fyrsta sinn og víst er að valið kom fleirum en honum á óvart enda segist hann ekki hafa verið í sambandi við þjálfara íslenska landsliðsins síðan hann var í unglingalandsliðunum. Síðan eru liðin nokkur ár en Óskar er 26 ára gamall.

Hugsaður sem varnarmaður?


„Það hefur svo sem ekki verið neitt mál af minni hálfu en var þeim mun óvæntara og skemmtilegra þegar Gunni [Gunnar Magnússon aðstoðarlandsliðsþjálfari] hafði samband við mig í síðustu viku,“ sagði Óskar sem leikið hefur með Drammen undanfarin rúm fjögur ár. Hlutverk hans hefur vaxið ár frá ári, ekki síst í sóknarleiknum. Varnarleikur hefur þó verið hans sérgrein. Óskar reiknar með Guðmundur Þórður hafi valið sig fyrst og fremst vegna varnarleiksins enda í stöðugri leit að stórum og stæðilegum mönnum til að hafa í hjarta varnarinnar.

Óskar Ólafsson (27) í miðri vörn Drammen í kappleik á dögunum. Mynd/Aðsend


Í viðtali sem birtist á vef norsku úrvalsdeildarinnar, topphandbold, og lauslega var skautað yfir í grein á handbolti.is fyrir fáeinum vikum sagði Kristian Kjelling þjálfari Drammen að Óskar ætti að sínu mati heima í íslenska landsliðinu og væri Óskar norskur væri hann í norska landsliðinu en að mati Kjelling er Íslendingurinn besti varnarmaður norsku úrvalsdeildarinnar.

Hefur átt gott tímabil


„Það er ómögulegt að segja,“ svaraði Óskar spuður hvort hann viti af hverju nú sé fyrst haft samband við hann frá Íslandi. Hvort ástæðan gæti verið að hann hafi verið betri í leikjum Drammen það sem af er leiktiðinni en nokkru sinni fyrr. „Ég er ánægður með eigin frammistöðu með Drammen það sem af er keppnistímabilinu. Til þessa hefur tímabilið verið mitt besta síðan ég kom til félagsins. Hlutverk mitt í sóknarleiknum hefur farið vaxandi sem ég er ánægður með,“ segir Óskar sem leikur í skyttustöðunni vinstra megin, milli miðjumanns og vinstri hornamanns.

Lítt þekktur á Íslandi


Fyrir utan þátttöku hans í leikjum yngri landsliðanna fyrir nokkrum árum þá fréttu handboltaáhugamenn hér heima fyrst af Óskari þegar honum skaut upp kollinum í leikmannahópi Drammen keppnistímabilið 2016/2017. Óskar er nú að hefja sitt fimmta keppnistímabil með Drammen-liðinu.
Óskar segir það ekki koma á óvart þótt lítið hafi farið fyrir honum í fjölmiðlum á Íslandi þar sem fáir íslenskir handknattleiksmenn hafi leikið í Noregi síðustu ár og því sé norska úrvalsdeildin ekki mikið undir smásjánni á Íslandi. Íslenskir handboltamenn hafa sótt meira í lið í Danmörku og í Svíþjóð. Íslendingar hafi þó getið sér gott orð í norskum handbolta og skemmst er að minnast þess að Sigvaldi Björn Guðjónsson landsliðsmaður og núverandi hornamaður pólsku meistaranna, Vive Kielce, lék um tveggja ára skeið með meistaraliðinu Elverum. „Sigvaldi nýtur mikillar virðingar í norskum handbolta eftir að hafa leikið afar vel með Elverum,“ sagði Óskar en Sigvaldi er einn þeirra sem lék með Óskari í yngri landsliðum Íslands.

Tala saman á íslensku


Óskar hefur búið í Noregi í 24 ár eins og áður segir. Hann talar reiprennandi íslensku enda segir Óskar að hann og foreldrarnir tali aldrei saman nema á íslensku. Sömu sögu sé að segja af systur hans. Fjölskyldan haldi íslenskunni við og segist Óskar vera nokkuð áfram um að halda við málinu og tengslum sínum við móðurmálið og Ísland.


Óskar ólst upp á Óslóarsvæðinu. Foreldrar hans heita Ólafur Einar Jóhannsson og Helga Guðmundsdóttir. Óskar á eina systur, Ástu Sól. Hún er eldri og leggur stund á nám í Óðinsvéum í Danmörku.


Óskar er ekki eingöngu í handboltanum með Drammen. Hann hefur síðustu þrjú ár unnið hjá fasteignafélagi sem leigir út skriftstofu,- og verslunarhúsnæði og er með bækistöðvar í bænum og er einn helsti bakhjarl Drammen-liðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -