„Þetta var alveg magnað, hreint geggjað. Ég tala nú ekki um stemninguna, framlenging og allir þessir áhorfendur. Þeir hafa aldrei verið fleiri á leik hjá okkur í KA-heimilinu,“ sagði Ásdís Guðmundsdóttir, leikmaður KA/Þórs við handbolta.is eftir sigurinn á ÍBV í oddaleik, 28:27, í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í dag í sannkölluðum háspennuleik.
„Það var ótrúlega gaman að taka þátt í þessu og hrikalega spenna,“ sagði Ásdís sem var rétt að jafna sig á spennunni þegar handbolti.is hitti hana að máli á gólfi KA-heimilisins. Hún sagði magnað að taka þátt í leiknum.
„Það heyrðist ekki mannsins mál. Þess vegna var mikilvægt að vera einbeittur, taka eina sókn í einu og muna eftir að anda,“ sagði Ásdís glöð í bragði.
Leikurinn þróaðist þannig að þótt KA/Þór væri með yfirhöndina lengi vel framan af síðari hálfleik þá tókst liðinu aldrei að slíta Eyjaliðið frá sér. Af því leiddi að síðustu tíu mínútur síðari hálfleiks og framlengingin var hreint rafmögnuð þar sem hvert mark var nánast úrslitamark.
„Nú var þetta háspenna allan leikinn og mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda einbeitingu. Fyrir leikinn var markmið okkar að halda forystu, gefa ekki eftir, halda áfram að sækja á hverju sem dyndi og það tókst.“
Spurð hvað Andri Snær Stefánsson hafi lagt upp með fyrir framlenginguna sagði Ásdís að hann hafi brýnt fyrir leikmönnum að halda einbeitingu, sama á hverju myndi ganga.
„Fara af fullum krafti í allar aðgerðir og skilja allt eftir á gólfinu. Ég held að við höfum náð að gera það,“ sagði Ásdís sem hrósaði Rakel Söru Elvarsdóttur sem skoraði sigurmarkið hálfri mínútu fyrir lok framlengingar. „Hún hefur verið hrikalega góð í vetur og alveg sérstaklega í síðustu leikjum.
Þetta er lífið, handbolti og aftur handbolti,“ sagði Ásdís Guðmundsdóttir leikmaður KA/Þórs sem hlakkar mjög til úrslitaleikjanna við Val en sá fyrsti verður í KA-heimilinu á miðvikudaginn.