- Auglýsing -
- Auglýsing -

Amelía Laufey skaut HK áfram – fyrsti sigur Stjörnunnar

HK-ingar hressar eftir sigurinn á FH í gærkvöld. Mynd/HK
- Auglýsing -

Amelía Laufey Miljevic tryggði HK sæti í átta liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar í kvöld þegar hún skoraði sigurmark liðsins á síðustu sekúndu leiksins við FH, 25:24, í Kórnum í Kópavogi.

Á sama tíma vann Stjarnan öruggan sigur á Aftureldingu í slag Olísdeildarliðanna í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í Mýrinni, 25:19, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 18:11. Darija Zecevic fór á kostum í marki Stjörnunnar, varði 14 skot, 42,4%. Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar í deildar- eða bikarkeppninni á keppnistímabilinu.

Á tæpasta vaði

Tæpari gat sigur HK-inga ekki verið í Kórnum en með sigurmarki 25:24 þegar leiktíminn var á þrotum. En um leið var hann þeim mun sætara. HK-liðið varð þar með fyrst liða til þess að vinna FH á leiktíðinni. FH-ingar er taplausir í Grill 66-deildinni eftir fjórar umferðir. Á sama tíma hefur HK átt erfitt uppdráttar eftir miklar breytingar á leikmannahópnum í sumar.

HK-liðið var sterkara framan af og var með mest fimm marka forskot í fyrri hálfleik, 12:7. Aðeins munaði þremur mörkum í hálfleik, 13:10. Þegar á leið síðari hálfleik tókst FH að jafna og eftir það var leikurinn í járnum og hrikalega spennandi. Endalokin voru líka í samræmi við það.

Slógu Aftureldingu út af laginu

Aftureldingarliðið náði sér aldrei á strik gegn Stjörnuliðinu sem beit heldur betur í skjaldarrendur á heimavelli í kvöld. Eftir tvo tapleiki fyrir Aftureldingu til þessa, á Ragnarsmótinu og í Olísdeildinni, var ljóst að Stjarnan ætlaði að selja sig dýrt.

Fimm einn vörnin sló vopnin úr höndum Aftureldingar auk þess sem sóknarleikur Stjörnunnar gekk einnig vel.

Aðeins lifnaði fyrir Aftureldingu í upphafi síðari hálfleiks. Liðið minnkaði muninn í fimm mörk, 20:15, en komst ekki nær. Leikmönnum voru mislagðar hendur í sókninni auk þess sem Darija varði eins og berserkur. Saga Sif Gíslason tók einnig til við að verja allt hvað af tók í marki Aftureldingar í síðari hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik. Frammistaða Sögu Sifjar dugði skammt þegar hvorki gekk né rak í sókninni.

Grótta í átta liða úrslit eftir stórsigur

HK – FH 25:24 (13:10).
Mörk HK: Anna Valdís Garðarsdóttir 7, Amelía Laufey G. Miljevic 6, Aníta Eik Jónsdóttir 6, Stella Jónsdóttir 3, Aníta Björk Bárðardóttir 1, Katrín Hekla Magnúsdóttir 1, Freyja Van Putte 1.
Varin skot: Tanja Glóey Þrastardóttir 8, Þórfríður Arinbjarnardóttir 2.

Mörk FH: Lara Zidek 7, Ena Car 6, Emilía Ósk Steinarsdóttir 4, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Embla Jónsdóttir 2, Eva Gísladóttir 2, Telma Medos 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 8.

Stjarnan – Afturelding 25:19 (18:11).
Mörk Stjörnunnar: Eva Björk Davíðsdóttir 6/4, Anna Karen Hansdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 4, Vigdís Arna Hjartardóttir 4, Helena Rut Örvarsdóttir 4, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1, Rakel Dórothea Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 14, 42,4%.

Mörk Aftureldingar: Hildur Lilja Jónsdóttir 8/4, Susan Ines Gamboa 3, Ragnhildur Hjartardóttir 2, Katrín Helga Davíðsdóttir 2, Katrín Erla Kjartansdóttir 1, Lovísa Líf Helenudóttir 1, Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir 1, Drífa Garðarsdóttir 1.
Varin skot: Saga Sif Gísladóttir 9, 28,1%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -