„Mér fannst við mæta sæmilega vel inn í leikinn og spila þokkalega. Við skoruðum rosalega mörg mörk. Með það er ég nokkuð ánægður fyrir utan kafla í síðari hálfleik þegar við gátum vart keypt okkur mark. Okkur tókst að vinna okkur út úr þeim kafla og spyrna okkur frá KA-liðinu á nýjan leik og vinna öruggan sigur. Við vorum hinsvegar alltof “soft” í varnarleiknum,” sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka eftir sjö marka sigur á KA, 38:31, í Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í kvöld.
Með sigrinum færðust Haukar upp að hlið Vals með 16 stig í fjórða sæti deildarinnar.
Ásgeir Örn sagði síðustu viku hafa verið erfiða. Haukar hafi leikið við Aftureldingu kvöldið áður en liðið fór í sólarhringsferðalag til Aserbaísjan hvar það lék tvisvar í Evrópubikarkeppninni um síðustu helgi. Strax að loknum síðari leiknum ytra hafi tekið við rúmlega sólarhringsferð heim. Alls ferðaðist liðið yfir 10 þúsund kílómetra á nokkrum dögum í viðbót við leikina.
Ferðin situr aðeins í mönnum
„Við komum heim á mánudagskvöldið og höfum síðan unnið í endurheimt eftir ferðina. Það er engu að síður kannski skiljanlegt að ferðin og leikirnir sitji aðeins í mönnum þótt við höfum reynt að stilla æfingar vikunnar af með ferðina í huga og hafa það að markmiði að mæta ferskir í leikinn í kvöld. Það heppnaðist heldur betur,” sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari karlaliðs Hauka í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Ásvöllum í kvöld.
Varnarleikurinn var ekki góður hjá okkur