Handknattleiksþjálfarinn Boris Bjarni Akbashev er látinn 89 ára gamall. Boris fæddist í Sovétríkjunum 12. júlí 1933 og var menntaður íþróttafræðingur. Hann lék með sovéska landsliðinu í handknattleik á sjötta áratug síðustu aldar. Boris var tækni- og þrekþjálfari sovéska landsliðsins með hléum á árunum 1967 til 1972, m.a. á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum.
Hingað til lands kom Boris fyrst 1980 og var ráðinn þjálfari karlaliðs Vals til tveggja ára. Sjö árum síðar kom hann á ný til Íslands og bjó hér á landi meira og minna eftir það. Boris þjálfaði í Ísrael tímabilið 1994/1995. Auk þess að þjálfa hjá Val um langt árabil var Boris aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins frá 1995 til 2001. Einnig þjálfaði Boris m.a. hjá Breiðabliki, ÍBV og Fjölni.
Boris fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 1997 og tók þá upp nafnið Bjarni eins og lög kváðu á um á þeim árum.
Boris tók við þjálfun, Trud Moskva, sem síðan varð Kuntsevo Moskva, árið 1962, og þjálfaði liðið um árabil með afar góðum árangri.
Boris markaði djúp spor í íslenskan handknattleik og mótaði marga af fremstu handknattleiksmönnum Íslands með þjálfun sinni og leiðsögn hjá Val. Boris einbeitti sér að tækni- og einstaklingsþjálfun hjá Val um árabil.
Boris lætur eftir sig eiginkonu, Olgu, og tvö börn. Sonur þeirra, Mickail, hefur einnig starfað við handknattleiksþjálfun hér á landi. Barnabarn Borisar og Olgu, Maksim, hefur getið sér afar gott orð sem þjálfari barna og unglinga hjá íslenskum félagsliðum.