„Ég hef svo sem ekkert einfalt svar við því hvernig stóð á þessari frammistöðu okkar. Kannski má segja að andleysi lýsi frammistöðu okkar,“ sagði Össur Haraldsson einn leikmanna U20 ára landsliðs karla í samtali við handbolta.is eftir átta marka tap landsliðsins fyrir Austurríksmönnum í annarri umferð riðlakeppni átta liða úrslita Evrópumóts karla í handknattleik, 34:26, í Dvorana Zlatorog-handknattleikshöllinni í Celje í Slóveníu fyrr í dag.
Eftir baráttuleik í gær og gott jafntefli við Portúgal í gær [Portúgal vann Spáni í dag, 39:38] þá kom frammistaða íslenska landsliðsins í dag mörgum í opna skjöldu.
„Við mættum ekki til leiks í byrjun. Undir lokin þá náðum við áhlaupi sem var ekki nógu gott,“ sagði Össur sem var afar vonsvikinn með leikinn eins og aðrir leikmenn íslenska liðsins sem gert höfðu sér vonir um að eiga allskostar við austurrísku piltunum sem lágu fyrir Spáni í gær, 37:25.
Sáum ekki til sólar
„Austurríkismenn voru flottir í dag. Markvörðurinn var góður og sóknarmennirnir flottir. Þeir léku hraðann bolta auk þess að vera fastir fyrir í vörninni. Við sáum bara aldrei til sólar,“ sagði Össur ennfremur. Hann vildi ekki skrifa tapið á reikning vanmats.
Ekkert vanmat
„Ég hef aldrei verið hrifinn af því orði, vanmat. Stundum eiga menn bara ekki góðan dag. Persónulega var ekki vanmat af minni hálfu. Ég hafði skoðað vel markvörð austurríska liðsins. Samt var ég með slaka skotnýtingu. Heilt yfir var austurríska liðið betra. Við vorum bara alls ekki nógu góðir,“ sagði Össur Haraldsson einn leikmanna 20 ára landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í Celje í dag.
Talsvert lengra myndskeiðsviðtal er við Össur efst í fréttinni.
Sáu ekki til sólar í Celje – átta marka tap
Þetta var bara ekki okkar dagur
EMU20 karla: Leikjadagskrá, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir