Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik hefur framlengt samning sinn við danska 1. deildarliðið EH Aalborg. Andrea gekk til liðs við félagið fyrir ári frá Kristianstad í Svíþjóð og hefur leikið afar vel á leiktíðinni og tekið miklum framförum. EH Aalborg situr í efsta sæti næst efstu deildar þegar þrjá umferðir eru eftir og stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeild.
„Ég tók án nokkurs vafa rétt skref í fyrra þegar ég samdi við liðið. Ég hef stigið framfaraskref á undanförnu ári og hef aldrei liðið betur inni á vellinum en núna,“ sagði Andrea við handbolta.is í morgun eftir að félagið sagði frá endurnýjun samningsins. Hún hefur skorað 76 mörk í 19 leikjum deildarinnar og er í 21. sæti yfir markahæstu leikmenn.
„Ég var því ekki í vafa um skrifa undir nýjan samaning,” sagði Andrea en fyrri samningur var til eins árs. „Ég vildi bara láta á það reyna hvort það væri eitthvað fyrir mig að spila í Danmörku og þess vegna var fyrri samningurinn bara til eins árs. Síðan hefur komið í ljós að ákvörðun mín í fyrra var hárrétt,“ sagði Andrea sem lék vel með íslenska landsliðinu í vináttuleikjum við B-landslið Noregs hér landi fyrir rúmri viku.
EHF Aalborg hefur unnið 18 leiki í röð og er með góða stöðu í efsta sæti deildarinnar. Sæti í úrvalsdeildinni er í seilingarfjarlægð en úrslitin munu væntanlega ráðast þegar tvö efstu liðin EH Aalborg og Bjerringbro mætast í næsta síðustu umferð á heimavelli Bjerringbro 25. mars. Tveimur stigum munar á liðunum.
„Auðvitað heillar það mann að eiga möguleika á að spila í dönsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili og fá þar með draum uppfylltan. Við eigum þrjá leiki og erum allar í liðinu staðráðnar í að ná þessu markmiði,“ sagði Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik og leikmaður EH Aalborg í samtali við handbolta.is.