Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik flytur til Þýskalands í sumar og verður leikmaður þýska 1. deildarliðsins Blomberg-Lippe frá og með næsta keppnistímabili. Hún hefur skrifað undir tveggja ára samning við félagið. Frá þessu er greint á heimasíðu Blomberg-Lippe í dag.
Andrea verður þar með samherji Díönu Daggar Magnúsdóttur sem samdi við Blomberg-Lippe í síðasta mánuði. Andrea er nú leikmaður Silkeborg-Voel KFUM í dönsku úrvalsdeildinni og var m.a. í íslenska landsliðinu sem tók þátt í heimsmeistaramótinu í desember á síðasta ári. Andrea hefur leikið 52 A-landsleiki og skorað í þeim 76 mörk.
Blomberg-Lippe er í 5. sæti þýsku 1. deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir og mun með sama áframhaldi tryggja sér sæti í Evrópukeppni félagsliða á næstu leiktíð.
Andrea sem er 26 ára gömul lék með Fjölni hér heima áður en hún gekk til liðs við Kristianstad í Svíþjóð 2018. Andrea var í Svíþjóð í fjögur ár. Sumarið 2022 varð hún liðsmaður EH Aalborg. Um mitt síðasta sumar, rétt eftir að hafa framlengt samning sinn við EH Aalborg, kom úrvalsdeildarliðið Silkeborg-Voel inn í myndina og losaði Andreu undan samningi sínum í Álaborg.
Andrea hefur leikið 52 A-landsleiki og skorað í þeim 76 mörk.