Landsliðskonan Andrea Jacobsen reiknar ekki með öðru en að leika með þýska liðinu Blomberg-Lippe á morgun þegar keppni hefst aftur í þýsku 1. deildinni í handknattleik að loknu hléi vegna heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik. Blomberg-Lippe sækir Oldenburg heim síðdegis á morgun.
„Ég á ekki von á öðru en að vera með í leiknum. Það hefur gengið vel hjá mér á síðustu æfingu þótt ég sé kannski ekki orðin alvega hundrað prósent góð,“ sagði Andrea við handbolta.is í dag.
Andrea sleit liðband í ökkla í byrjun nóvember og varð af þeim ástæðum ekkert með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í lok nóvember og í byrjun desember.
Blomberg-Lippe er í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar með 14 stig eftir sjö leiki. Oldenburg, sem Andrea og liðsfélagar sækja heima á morgun, er í 5. sæti með átta stig.


