Andrea Jacobsen og félagar í EH Aalborg halda í vonina um sæti í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik eftir sigur á Holstebro, 26:23, í oddaleik í umspili dönsku 1. deildarinnar í dag. Leikið var á heimavelli EH Aalborg.
Ekki liggur alveg ljóst fyrir fyrir hverjum EH Aalborg mætir í umspilinu en margt bendir til þess að Ajax verði andstæðingurinn. Ajax rekur sem stendur lestina í keppni liðanna í neðri hluta úrvalsdeildarinnar.
Andrea skoraði ekki mark í dag. Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Holstebro sem verður að sætta sig við að vera annað tímabil í næsta efstu deild. Holstebro féll úr úrvalsdeildinni fyrir ári.
Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Andrea og samherjar voru marki yfir í hálfleik, 10:9.
Þótt ekki sé hægt að slá föstu ennþá hver andstæðingur EH Aalborg verður er víst að fyrsti leikurinn af mögulega þremur verður sunnudaginn 7. maí.