Andrea Jacobsen og liðsfélagar hennar í Blomberg-Lippe eru komnar í átta liða úrslit Evrópudeildar kvenna þótt ein umferð sé eftir af riðlakeppni 16-liða úrslitum. Blomberg-Lippe vann JDA Bourgogne Dijon Handball, 28:27, í Frakklandi í kvöld og er þar með öruggt um annað af tveimur efstu sætum C-riðils. Tvö efstu lið hvers riðils komast áfram í átta liða úrslit.
Andrea skoraði tvö mörk í leiknum í Frakklandi í kvöld í fjórum skotum. Ida Margrethe Hoberg Rasmussen fyrrverandi leikmaður KA/Þórs skoraði átta mörk fyrir þýska liðið sem var þremur mörkum undir í hálfleik, 15:12. Mikil spenna var á lokamínútunum en Dijon var yfir 25:24, þegar fimm mínútur voru leiksloka. Nieke Kühne skoraði sigurmark Blomberg-Lippe á síðustu sekúndu.
Díana Dögg Magnúsdóttir sem leikur einnig með Blomberg-Lippe er frá keppni um þessar mundir eftir að hafa ristarbrotnað fyrir þremur vikum.
Fá Ungverja í heimsókn
Blomberg-Lippe fær ungverska liðið Motherson Mosonmagyarovari KC í heimsókn í næstu viku. Á sama tíma eigast við pólska liðið KGHM MKS Zaglebie Lubin og JDA Bourgogne Dijon Handball. Franska liðið þarf að vinna með þriggja marka mun til þess að ná öðru sæti riðilsins af því pólska.