- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Andri Már hefur samið við Leipzig í Þýskalandi

Andri Már Rúnarsson í leik U 21 árs landsliðinu á HM í sumar. Mynd/IHF/Jozo Cabraja
- Auglýsing -

Andri Már Rúnarsson einn leikmanna U21 árs landsliðsisns sem hafnaði í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu á dögunum er að ganga til liðs við þýska handknattleiksliðið SC DHfK Leipzig að lokinni eins árs dvöl hjá Haukum. Frá þessum yfirvofandi vistaskiptum er sagt samkvæmt heimildum á vef Sportbild í kvöld.


Andri Már er tvítugur að aldri og kom til Hauka rétt um það bil sem keppnistímabilið hófst í fyrrahaust. Hann hafði þá verið í herbúðum Stuttgart í eitt ár en ekki fengið þau tækifæri sem vonir stóðu til. Andri Már hefur einnig leikið með Fram og Stjörnunni hér heima. Hann þekkir til í herbúðum Leipzig eftir að hafa leikið með unglingaliði félagsins fyrir nokkrum árum og þá strax vakið athygli.

Missa spón úr aski sínum

Andri Már lék afar stórt hlutverk í liði Hauka á síðustu leiktíð og var helsta vopn liðsins þegar það kom í úrslitaleikina við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Ljóst er að Haukar missa verulegan spón úr aski sínum við brotthvarf Andra Más.

Lykilmaður í bronsliðinu

Einnig var Andri Már í stóru hlutverki í bronsliði Íslands á heimsmeistaramótinu sem lauk í Berlín 2. júlí þegar íslenska landsliðið hreppti bronsverðlaun. Hann var markhæsti leikmaður íslenska liðsins með 34 mörk og átti einnig flestar stoðsendingar, 28, sem fleytti honum í áttunda sæti um þá sem áttu flestar stoðsendingar í mótinu.

Faðir Andra Más, Rúnar Sigtryggsson, er þjálfari SC DHfK Leipzig auk þess sem fyrir er hjá liðinu íslenski landsliðsmaðurinn, Viggó Kristjánsson.

Læra af reynslunni

Fram kemur að í ljósi reynslu síðasta árs, þegar talsvert var um meiðsli í herbúðum Leipzig-liðsins, hafi verið ákveðið að hafa vaðið fyrir neðan sig og styrkja stoðirnar fyrir næsta keppnistímabil. Andri Már er einn þeirra leikmanna sem félagið hyggst bæta við sig.

Rúnar tók við þjálfun Leipzig í byrjun nóvember á síðasta ári og reif liðið upp úr volæði fallbaráttunnar á fáeinum vikum m.a. með sjö sigurleikjum í röð sem er félagsmet. Heldur gaf liðið eftir þegar meiðsli tóku að herja á leikmannahópinn á síðari hluta tímabilsins, ekki síst eftir að Viggó Kristjánsson heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Æfingar fyrir næsta keppnistímabil voru að hefjast hjá Leipzig-liðinu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -