Andri Már Rúnarsson mætti til leiks á ný með HC Erlangen í kvöld eftir eins leiks fjarveru vegna lítilsháttar meiðsla. Andri Már skoraði þrjú mörk í sex marka sigri HC Erlangen í heimsókn til Hannover-Burgdorf í sjöttu umferð þýsku 1. deildarinnar. Hann átti einnig eina stoðsendingu í sannfærandi sigurleik.
Erlangen var með fimm marka forskot þegar fyrri hálfleikur var að baki í ZAG Arena í Hannover, 15:10.
Erlangen lyftist upp í áttunda sæti með 6 stig að loknum sex leikjum.
Viggó Kristjánsson lék ekki með Erlangen í kvöld, ekkert fremur en í viðureigninni við Magdeburg síðasta laugardag. Viggó mun vera meiddur.
Færeyingurinn Vilhelm Poulsen, sem lék með Fram frá 2020 til 2022 skoraði tvö af mörkum Hannover-Burgdorf.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf. Liðið situr í 13. sæti af 18 liðum deildarinnar með fjögur stig.
- Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.