Andri Már Rúnarsson fór á kostum með HC Erlangen í sigri liðsins á Ludwigsburg, 37:32, á æfingamóti fjögurra liða í Tirol í gær. Andri Már, sem kom til Erlangen í síðasta mánuði frá Leipzig eftir nokkurn aðdraganda, skoraði 11 mörk í leiknum. Hann var hreinlega óstöðvandi.
Viggó Kristjánsson tók ekki þátt í leiknum vegna meiðsla en ekki er ljóst hversu slæm þau eru. Einnig voru Christopher Bissel og Antonio Metzner leikmenn Erlangen fjarverandi vegna meiðsla.
HC Erlangen mætir Eisenach í kvöld í síðari viðureign liðanna á mótinu góða, Silberregion Karwendel Cup. Í hinni viðureign mótsins eigast við Ludwigsburg og austurríska liðið Sparkasse Schwaz Handball Tirol sem er gestgjafi mótsins.
Eisenach lagði Sparkasse Schwaz Handball Tirol, 32:27.