Andri Már Rúnarsson skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar þegar SC DHfK Leipzig vann botnlið VfL Potsdam, 35:26, í MBS-Arena í Berlín í kvöld í viðureign liðanna í þýsku 1. deildinni í handknattleik, nánar tiltekið í 16. umferð. Leipzig var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17:13.
Viggó Kristjánsson, sem hefur verið sterklega orðaður við HC Erlangen, skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu fyrir Leipzig-liðið sem var með talsverða yfirburði í leiknum frá upphafi til enda. Rúnar Sigtryggsson er sem fyrr þjálfari Leipzig.
Franz Semper var markahæstur hjá Leipzig með sjö mörk. Maxim Orlov var markahæstur hjá Potsdam með sjö mörk, eitt þeirra úr vítaköstum.
SC DHfK Leipzig er áfram í 12. sæti deildarinnar af 18 liðum. Stöðuna í deildinni er finna neðst í greininni.
Melsungen vann
Efsta lið þýsku 1. deildarinnar, Melsungen, vann það lið sem var í næst efsta sæti fyrir leikinn, Hannover-Burgdorf, 31:23, á heimavelli í kvöld. Arnar Freyr Arnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen. Elvar Örn Jónsson skoraði ekki mark að þessu sinni.
Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf sem er í öðru til fjórða sæti ásamt Kiel og Füchse Berlin. Hvert lið hefur 24 stig eftir 16 leiki.
Í þriðja leik kvöldsins fögnuðu leikmenn Rhein-Neckar Löwen sigri gegn Stuttgart, 28:25, í Stuttgart. Juri Knorr lék ekki með Löwen vegna veikinda.
Staðan í þýsku 1. deildinni: