Andri Erlingsson leikmaður ÍBV hefur skrifað undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliðið IFK Kristianstad. Hann fer til félagsins í sumar. Andri lék fyrst með ÍBV 16 ára gamall en hefur síðan vaxið fiskur um hrygg og er nú orðinn einn lykilmanna ÍBV auk þess að gera það mjög gott með U19 ára landsliði Íslands á HM í sumar.
Andri fetar þar með í fótspor systkina sinna, Elmars og Söndru, sem einnig hafa leikið ytra í atvinnumennsku. Elmar er nú hjá Nordhorn-Lingen í Þýskalandi en Sandra flutti heim til Eyja á síðasta ári eftir fimm ár í Danmörku og í Þýskalandi.
Á heimasíðu IFK Kristianstad er haft eftir Andra að hann sé fullur eftirvæntingar að taka á við ný verkefni hjá IFK á næsta tímabili.
IFK Kristianstad er efst í sænsku úrvalsdeildinni um þessar mundir en keppni liggur niðri vegna Evrópumóts landsliða.
Einar Bragi Aðalsteinsson leikur um þessar mundir með IFK og samdi á dögunum til árs í viðbót. Í gegnum tíðina hafa margir Íslendingar leikið með liðinu, m.a. Ólafur Andrés Guðmundsson, Teitur Örn Einarsson og Arnar Freyr Arnarsson.
Sjá einnig: Markakóngurinn semur við toppliðið í Svíþjóð



