Andri Finnsson leikmaður Vals hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja keppnisbann frá og með 27. febrúar. Þetta kemur fram í úrskurði aganefndar sem birtur var á vef HSÍ í dag. Andri missir þar með af þremur af fjórum síðustu leikjum Vals í Olísdeildinni.
Andri hlaut útilokun með skýrslu vegna sérstaklega hættulegrar aðgerðar í leik Fjölnis og Vals í Olís deild karla þann 20.02.2025. Dómarar mátu svo að brotið félli undir reglu 8:6 a.
Í ljósi þessa var Val gefið færi á að skila inn greinargerð áður en aganefnd felldi úrskurð sinn. Gerði félagið það.
„Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í þriggja leikja bann að teknu tilliti til ítrekunaráhrifa. Aganefnd vekur athygli á frekari stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 1. mgr. 11. sömu reglugerðar,“ segir orðrétt í úrskurðinum.