Landslið Suður Kóreu, sem verður m.a. með íslenska landsliðinu í riðli á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í næsta mánuði er komið til Evrópu. Liðið vann landslið Brasilíu, 28:22, í fyrstu umferð á fjögurra liða móti í Póllandi í dag. Suður-Kóreumenn voru tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik.
Suður Kóreuliðið var með yfirhöndina í leiknum í dag frá upphafi til enda. Á morgun mæta Suður Kóreumenn Pólverjum í annarri umferð mótsin. Pólverjar töpuðu í kvöld fyrir Túnisbúum með eins marks mun, 32:31, í hörkuleik í síðari leik dagsins.
Portúgalinn Rolando Freitas tók í sumar við þjálfun landsliðs Suður Kóreu. Hann er fyrsti þjálfarinn sem ekki er fæddur í Suður Kóreu sem þjálfar karlalandsliðið. Freitas er þrautreyndur þjálfari landsliða og félagsliða og lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Freitas er ætlað að byggja upp sterkt landslið sem er byggt að uppistöðu til á U21 árs landsliðinu sem Suður Kóreumenn sendu til leiks á HM í Egyptalandi fyrir tveimur árum.