- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Annar 50 marka leikurinn

Ómar Ingi Magnússon skoraði 12 mörk í sigrinum á Eistlendingum í gærkvöld í Laugardalshöll. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla skoraði 50 mörk í gærkvöld og lék á als oddi í 25 marka sigri á Eistlendingum í fyrri umspilsleiknum um sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku, Noregi og Króatíu í janúar. Eftir því sem næst verður komist er þetta aðeins í annað sinn sem íslenska karlalandsliðið skorar a.m.k. 50 mörk í kappleik.

Rúm 23 ár eru liðin síðan íslenska landsliðið í handknattleik karla skoraði skoraði fyrst 50 mörk í leik.

Hinn 20. janúar 2003 vann Ísland landslið Ástralíu, 55:15, í upphafsleik sínum á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Viseu í Portúgal. Var það í fyrsta sinn sem landslið skoraði yfir 50 mörk í leik á HM. Fjörtíu marka munurinn var þó ekki heimsmet. Þjóðverjar áttu og eiga enn metið, 46:4, þegar þeir lögðu Lúxemborgara í Berlín HM 1958.

Orri Freyr Þorkelsson fagnar með Ýmir Erni Gíslasyni í leik á EM 2022. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Orri Freyr Þorkelsson skoraði 50. mark Íslands á síðustu sekúndu leiksins í Laugardalshöll í gær þegar hann hljóp eins kólfi væri skotið fram leikvöllinn og skoraði í þann mund sem leiktíminn rann út. Hans sjöunda mark í leiknum.

Sigurður Bjarnason skoraði 50. mark Íslands í 55:15 sigrinum á Áströlum á HM, einnig eftir hraðaupphlaup og jók forskotið í 37 mörk, 50:13. Markið var um leið það 300. sem Sigurður skoraði fyrir landsliðið.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur með 14 mörk í leiknum við Ástrali. Næstur kom Heiðmar Felixson með 10 mörk og varð 25. landsliðsmaður Íslands til þess að skora a.m.k. 10 mörk í landsleik. Var það í annað sinn sem tveir landsliðsmenn skoruðu 10 mörk eða fleiri í landsleik. Þeir fyrstu voru Axel Axelsson 13 og Geir Hallsteinsson 10 í leik við Frakka í undankeppni HM 1974 í leik í Laugardalshöll árið 1973, 28:15.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur gegn Eistum í gær með 12 mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson var næstur með 8 mörk samkvæmt leikskýrslu á vef Handknattleikssambands Evrópu.

Síðari viðureign Íslands og Eistlands fer fram í Tallinn á laugardaginn. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja öðlast farseðil á HM 2025 sem haldið verður í Danmörku, Noregi og Króatíu frá 14. janúar til 2. febrúar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -