KA/Þór gefur ekkert eftir í toppbaráttu Olísdeildarkvenna. Aðra helgina í röð vann liðið með eins marks mun og að þessu gegn Stjörnunni í TM-höllinni í Garðabæ, 27:26, í afar kaflaskiptum leik. Minnstu mátti muna að Stjörnukonum tækist að krækja í annað stigið en Hanna Guðrún Stefánsdóttir skaut í stöng á síðustu sekúndum. KA/Þórsarar fögnuðu sigri og standa því jafnfætis Fram með 14 stig eftir níu leiki. Stjarnan er í fjórða sæti, stigi á eftir Val sem hefur 11 stig í þriðja sæti.
Sóknarleikur Stjörnunnar var stirður framan af og nokkuð um ónákvæmar sendingar og einföld mistök sem leikmenn KA/Þórs nýttu sér til hraðaupphlaupa. Tinna Húnbjörg Einarsdóttir hélt Stjörnunni inni í leiknum með ágætri markvörslu. Um miðjan síðari hálfleikinn var þriggja marka munur, 9:6, KA/Þór í vil. Helmingur marka KA/Þórsliðsins var eftir hraðaupphlaup eða seinni bylgju.
Áfram hélt að halla undan fæti hjá Stjörnunni. Varnarleikurinn var slakur þar sem alla færslu vantaði. Sóknarleikurinn var áfram ómarkviss þar sem mesta var leikið upp á að Helena Rut Örvarsdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir áttu að ljúka sóknunum. Munurinn fór upp í sjö mörk á kafla. Staðan var 18:12 að loknum fyrri hálfleik.
Ekki voru liðin nema um ein og hálf mínúta af síðari hálfleik þegar gera varð langt hlé á leiknum vegna þess að leikklukkan í TM-höllinni stöðvaðist. Þrátt fyrir talsverða rekistefnu tókst ekki að koma klukkunni af stað aftur. Varð því að notast við flettispjöld og skeiðklukku það sem eftir var leiksins til þess að halda utan um stöðuna og leiktímann.
Stjarnan byrjaði að sækja með sjö menn í sókn undir lok fyrri hálfleiks en sú ráðstöfun skilaði ekki fullum árangri fyrr en komið var inn í síðari hálfleikinn. Stjarnan skoraði fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og þar með var kominn spenna í leikinn sem stefndi í að verða að einstefnu eins og hann þróaðist í fyrri hálfleik.
Stjarnan bakkaði aftur niður í sex á sex þegar tekist hafði að minnka muninn í tvö mörk.
KA/Þór fór einnig að reyna sig við sjö manna sóknarleik og var árangurinn misjafn.
Fyrst og fremst batnaði varnarleikur Stjörnunnar til muna í síðari hálfleik þótt vissulega hafi verið batamerki á sóknarleiknum. Stjarnan komst yfir, 23:22, þegar óvíst er hversu langt var til leiksloka. Sennilega hefur verið nærri tíu mínútum fyrir leikslok.
Sólveig Lára Kristjánsdóttir var ekki með KA/Þór í leiknum. Þá er Martha Hermannsdóttir ennþá frá keppni og eins og Katrín Vilhjálmsdóttir.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 9, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 5/2, Eva Björk Davíðsdóttir 4/1, Elísabet Gunnarsdóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 2, Thelma Sif Sófusdóttir 1.
Varin skot: Tinna Húnbjörg Einarsdóttir 11, 32,4%. Hildur Öder Einarsdóttir 0.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 6/3, Ásdís Guðmundsdóttir 6/1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonax 11, 33,3% – Sunna Guðrún Pétursdóttir 2, 33,3%.