Sænska landsliðið í handknattleik karla vann brasilíska landsliðið öðru sinni á þremur dögum í vináttuleik í Partille Arena í kvöld, 33:24. Svíar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 17:11. Þetta var síðari undirbúningsleikur sænska landsliðsins fyrir Evrópumótið sem hefst eftir rúma viku.
Brasilíumenn héldu í við Svía á upphafsmínútunum, 6:6, og var síðasta staðan jöfn í viðureigninni.
Andreas Palicka, markvörður sænska landsliðsins, fékk þrumuskot í andlitið þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og kom ekkert meira við sögu. Mikael Appelgren leysti Palicka af.
Lukas Sandell var markahæstur í sænska liðinu með átta mörk. Hampus Wanne skoraði fimm sinnum. Jonathan Carlsbogård og Nikola Roganovic skoruðu fjögur mörk hvor.
Hugo Bryan Monte Dos Santos skoraði fimm mörk og var atkvæðamestur í brasilíska liðinu.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar



