- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Annar sigur hjá Haukum sem mæta Fram í undanúrslitum

Elín Klara Þorkelsdóttir, Haukum, skoraði helming marka liðsins í kvöld gegn ÍR. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Haukar er komnir í undanúrslit Olísdeildar kvenna í handknattleik eftir að hafa lagt Stjörnuna öðru sinni í Hekluhöllinni í Garðabæ í kvöld, 25:21, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik, 11:10. Haukar mæta Fram í undanúrslitarimmu sem hefst að öllum líkindum 23. apríl, eftir rúma viku. Stjarnan er á hinn bóginn komin í sumarleyfi.

Jafnt var á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik. Aðeins rétt í upphafi náði Stjarnan í tvígang tveggja marka forskoti. Allt annað var að sjá varnarleik Stjörnunnar að þessu sinni en í fyrsta leiknum á Ásvöllum á föstudaginn. Haukar lentu hvað eftir annað í vandræðum.

Svipaða sögu var segja hinum megin vallarins þar sem Margrét Einarsdóttir var vel á verði eins og kollegi hennar í Stjörnumarkinu, Darija Zecevic. Sóknarleikurinn gekk heldur ekki sem skildi hjá Stjörnuliðinu.

Staðan að loknum fyrri hálfleik var 10:9, Haukum í vil.

Framan af síðari hálfleik var leikurinn áfram í járnum eins og í fyrri hálfleik. Um miðjan hálfleikinn náðu Haukar þriggja marka forskoti, 19:16, eftir að Elín Klara Þorkelsdóttir tók til sinna ráða og skoraði tvö mörk í röð. Hún náði hvað eftir annað að koma róti á vörn Stjörnunnar sem var eitthvað sem Haukaliðið þurfti á að halda.

Stjarnan náði ekki að brúa bilið það sem eftir lifði leiks. Inga Dís Jóhannsdóttir kom Haukum fjórum mörkum yfir, 23:19, þegar fjórar mínútur voru eftir af leiktímanum. Úrslitin voru ráðin.

Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 11/2, Embla Steindórsdóttir 7/2, Anna Karen Hansdóttir 1, Vigdís Arna Hjartardóttir 1, Hanna Guðrún Hauksdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 17/2, 40,5%.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 7/1, Inga Dís Jóhannsdóttir 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 4/2, Alexandra Líf Arnarsdóttir 3, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 2, Sara Odden 2, Birta Lind Jóhannsdóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 14/2, 30%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -