Kvennalið ÍR er heldur betur að sækja í sig veðrið í Grill 66-deildinni í handknattleik. Í kvöld vann liðið annan leikinn í röð þegar það tók á móti ungmennaliði HK. Lokatölur, 24:23, í hörkuleik sem þótti hin mesta skemmtun. HK var marki yfir í hálfleik, 11:10, en ÍR-liðið hafði það af að tryggja sér sigurinn í jöfnum leik.
Um síðustu helgi gerði ÍR-liðið sér lítið fyrir og lagði efsta lið Grill 66-deildarinnar, ungmennalið Fram, einnig í jöfnum og skemmtilegum leik í íþróttahúsinu í Austurbergi. Var það fyrsta tap ungmennaliðs Fram í nærri tvö ár.
Til stóð í fyrravor að leggja meistaraflokk kvenna niður hjá ÍR en af harðfylgi tókst að koma í veg fyrir að það ætti sér stað. ÍR-stúlkurnar hafa svo sannarlega þakkað fyrir sig með vasklegri framgöngu á leiktíðinni og sýnt að þær eiga svo sannarlega sinn tilverurétt í deildinni. ÍR situr um þessar mundir í fimmta sæti af níu liðum með sex stig að loknum sjö leikjum.
Mörk ÍR: Stefanía Ósk Hafberg 11, Ólöf Marín Hlynsdóttir 5, Adda Sólbjört Högnadóttir 2, Sylvía Jónsdóttir 2, Hildur María Leifsdóttir 2, Hildur Marín Andrésdóttir 1, Guðrún Maryam Rayadh 1.
Mörk HK U.: Sara Katrín Gunnarsdóttir 13, Ólöf Ásta Arnþórsdóttir 3, Lovísa Helenudóttir 2, Inga Dís Jóhannsdóttir 2, Leandra Náttsól Salvamoser 2, Heiðrún Berg Sverrisdóttir 1.