Sökum anna verður Hassan Moustafa, forseti Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, ekki viðstaddur úrslitaleiki heimsmeistaramóts kvenna. Hann er störfum hlaðinn upp fyrir haus við undirbúning þings IHF sem hefst á föstudaginn í Kaíró. Moustafa, sem er 81 árs, sækist eftir endurkjöri en hann hefur í fyrsta sinn í 16 ár fengið mótframboð.
Hefur alltaf mætt
Í skriflegu svari til TV2 í Danmörku staðfestir IHF að forsetinn muni ekki taka þátt í úrslitahelginni í Rotterdam. Hann hefur aldrei fyrr látið sig vanta á úrslitaleiki heimsmeistaramóts.
Í svari IHF segir enn fremur að Moustafa þyki mikið að vera ekki viðstaddur. Undirbúningur fyrir mikilvægt þing hafi hins vegar forgang enda mun vera í mörg horn að líta.
Að sögn IHF þarf að greiða úr óskum um vegabréfsáritanir fyrir þingið auk fleiri atriða er skipulag þingsins varð sem krefjast nærveru forsetans í Kaíró. Enn eru ríflega 30 vegabréfsáritunarumsóknir óafgreiddar sem Moustafa þarf að tryggja að verði teknar til greina.
Í stól forseta í 25 ár
Moustafa hefur verið forseti IHF í aldarfjórðung. Þrír Evrópubúar bjóða sig fram gegn honum; Þjóðverjinn Gerd Butzeck, Slóveninn Franjo Bobinac og Hollendingurinn Tjark de Lange.
Ásgeir Jónsson varaformaður HSÍ situr þingið. Hann sagði við handbolta.is í vikunni að ekki liggi fyrir hver frambjóðenda fjögurra fær atkvæði Íslands.





